140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég velti upp í ræðu minni áðan var hvort það hafi verið skynsamlegt að taka ákvörðun núna um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, frekar en að búa málið betur. Það á auðvitað eftir að fara yfir það og við vitum að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að láta sérfræðinga fara yfir það og stemma af, ef ég má orða það þannig, skoða hvort eitthvað stangist á. Það væri æskilegra að mínu mati að gera það fyrir fram. Í ræðu minni var ég að velta því upp hvort skynsamlegra væri að fara lengra inn í ferlið þannig að við hefðum afmarkaðri og skýrari spurningar og hugsanlega sama skilninginn á þeim.

Tökum sem dæmi fyrstu spurninguna, hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Það er auðvitað svo rosalega margt sem kemur fram í tillögum stjórnlagaráðs, þannig að ef við segjum að svarið verði annaðhvort já eða nei mundi ég ætla að það yrðu skiptar skoðanir á því þegar menn færu að setja tillögurnar í endanlegan búning, hvort menn væru inni á strikinu hvað þetta varðar.

Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að við munum ræða efnislega um þær tillögur þegar við tökum þær til afgreiðslu í þinginu á komandi vetri og leggjum síðan aftur fyrir þjóðina.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um stöðuna í dag, við erum komin á þennan stað og aðdragandanum er lokið þannig að við þurfum ekki að festa okkur lengur við hann, þá notaði ég afskaplega lítið af mínum tíma í ræðu minni til að fara yfir aðdragandann. Ég vék nánast ekkert að honum þannig að ég tek þessar ábendingar ekki til mín. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé að beina þeim til einhverra annarra.