140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli forseta á því að hér fyrir utan þinghúsið er fjöldi fólks að berja trumbur eða eitthvað slíkt og vekja athygli á því að þingið er ekki að fjalla um það sem kannski mestu skiptir, sem eru málefni heimilanna. Við hljótum að spyrja, frú forseti, og ég spyr forseta að því hvort forseti geti með einhverju móti beitt sér fyrir því að mál sem varða málefni heimilanna verði tekin á dagskrá þingsins og verði afgreidd. Ef forgangsröðunin er svona vitlaus hljótum við að gera athugasemdir við það, frú forseti. Það er ekkert í þeim tillögum um stjórnarskrárbreytingar sem hér er verið að ræða sem er til þess fallið að leysa þau vandamál sem við erum að glíma við í dag, sem verið er að kalla eftir út um allt samfélagið að séu leyst, en það eru málefni heimilanna. Nei. Forgangsröðun stjórnvalda er sú að þvæla í gegnum þingið einhverju máli um breytingar á stjórnarskrá sem eru ekki einu sinni breytingar heldur einhvers konar skoðanakönnun sem á að gera og skiptir engu í stóra samningnum. Á þetta verðum við að hlusta, frú forseti.