140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur þá er það ekki skoðun neins í stjórnarandstöðunni að það eigi að hafa eitthvað af þjóðinni. Það snýst ekki um það og hv. þingmaður veit það. Það er ágreiningur um þær aðferðir sem þarna eru lagðar til, það er ágreiningur um hvað verið er að bera á borð fyrir þjóðina.

Mér leiðist þetta tal um að hér taki hv. þingmenn til máls um fundarstjórn forseta af einhverri léttúð til lengja umræðuna, eins og hv. þm. Magnús Norðdahl sagði, ég vísa því beint til föðurhúsanna. Þarna tók hann sjálfur tvær mínútur af tíma hv. Alþingis til að ræða fundarstjórn forseta. Eins leiðist mér allt tal um að við höfum rætt þetta mál í fleiri klukkustundir. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um að málið hefði verið rætt í 20 klukkustundir. Þegar þingfundur hófst í dag hafði málið verið rætt í nákvæmlega 6,68 klukkustundir við síðari umr. (Forseti hringir.) og meðallengd þingræðu voru heilar 13 mínútur. Það hefði nú þótt (Forseti hringir.) aumt málþóf fyrr á dögum.