140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum mikilvægt málefni er varðar breytingar á stjórnarskránni og til stendur, vegna þeirrar tilhögunar meiri hlutans í þinginu, að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um ákveðnar spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur rétt að leggja fyrir þjóðina. Þess vegna er kannski ekki rétt að segja að lagt sé til að greitt sé atkvæði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs eins og tillagan ber með sér. Þetta eru tillögur sem smíðaðar eru í þingnefnd í þinginu og mætti segja að þær grundvallist að einhverju leyti á tillögum stjórnlagaráðs, þannig að það er eitthvað sem ég tel að menn þurfi að líta aðeins á.

Ég lýsti því í þingræðu minni að ég hefði persónulega miklar efasemdir um að þörf væri á viðamiklum breytingum á stjórnarskránni og er frekar íhaldssöm þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni, en auðvitað tel ég rétt að þingheimur ræði með hvaða hætti og hvaða ákvæðum sé rétt að ráðast í breytingar. Við höfum hins vegar ekki farið í þá umræðu og sú umræða stendur ekki yfir í þinginu heldur er einungis verið að fjalla um þessar tilteknu breytingartillögur. Margir hv. þingmenn, sérstaklega þeir sem eru í þessari nefnd og flytja þingsályktunartillöguna, hafa sagt að ekki eigi ræða stjórnarskrárbreytingar efnislega við þessa umræðu. Þess vegna vekur það athygli að í nefndarálitinu frá meiri hlutanum kemur fram sú afstaða meiri hlutans að þau telji brýnt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Á bls. 3 í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að frumvarp Alþingis, að aflokinni síðari samþykkt þess skv. 79. gr. gildandi stjórnarskrár, eigi að bera undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar og gildistöku í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Mér finnst mjög athyglisvert að það komi fram í nefndaráliti fyrst við erum ekki að ræða efnislega um hvaða breytingar á að gera á stjórnarskránni heldur einungis þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er í gildi stjórnarskrá og ef breyta á henni þarf að fara eftir ákvæðum núgildandi stjórnarskrár.

Í 79. gr. stjórnarskrár Íslands er fjallað um með hvaða hætti hægt er að breyta stjórnarskrá. Ég sé ekki fullnægjandi rökstuðning fyrir því í nefndarálitinu og finnst frekar ankannalegt að það komi fram í þessu nefndaráliti, sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem fallið hafa í umræðunni, eins og ég vísaði til áðan, að við eigum ekki að ræða stjórnarskrána og hvað okkur finnist um breytingar á henni o.s.frv. og þá líklega ekki heldur um málsmeðferðina sem verður væntanlega næsta vor. Sérstaklega er það athyglisvert vegna þess að í breytingartillögunum sem lagðar eru fram við þingsályktunartillöguna er lagt til að texti bætist inn á kjörseðilinn um hvernig stjórnarskrá er breytt. Sá texti geymir ekki þá skoðun meiri hlutans um að fara eigi að fram þjóðaratkvæðagreiðsla að aflokinni þeirri málsmeðferð sem núverandi stjórnarskrá tekur til. Mér finnst það einkennilegt og ég tel rétt að vekja athygli á því í umræðunni.

Frú forseti. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni í þessu máli hvaða viðmið og hvaða sjónarmið rannsakendur byggðu helst á þegar þeir legðu fyrir spurningar í könnunum eða svokallaða spurningavagna eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kallaði þessa tillögu til þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. spurningavagn til þjóðarinnar.

Það er mjög mikilvægt að þær spurningar sem spurt er séu skýrar og að menn skilji nákvæmlega hvað meint er með hverri spurningu vegna þess að ef maður ætlar að fá fram einhverja afstöðu sem hægt er að nota til að byggja á að einhverju leyti verður það að vera skýrt hvað spurt er um.

Ef við skoðun aðeins lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þá stendur þar í 2. mgr. 3. gr. að á kjörseðli skuli skýrt koma fram spurning um hvort kjósandi samþykki þá tillögu sem borin er upp og gefnir tveir möguleikar á svari, já og nei. Því ber að fagna þeim breytingum sem meiri hlutinn hefur þó gert á þeim spurningum sem ætlunin er að leggja fram vegna þess að þar er talsvert komið til móts við það sem ég benti á, en miklir gallar voru á upphaflegu tillögunni.

Síðan segir áfram í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, í 11. gr., með leyfi forseta:

„Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni.“

Ef við skoðum svo þær spurningar sem lagt er til með breytingartillögunni að komi fram þá eru þar nokkrar spurningar, til dæmis nr. 2:

2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Valmöguleikarnir eru já eða nei.

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Valmöguleikarnir eru já eða nei.

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? Valmöguleikarnir eru já eða nei.

Þegar maður semur spurningar þurfa þær að vera skýrar og það þarf að vera hægt að skrifa þær þannig að þeir sem svara eigi að geta skilið þær á nákvæmlega sama hátt, þ.e. skilja nákvæmlega hvað átt er við með spurningunum. Oft er varað við því að nota hugtök eða orðalag sem ekki er víst að allir skilji á sama hátt vegna þess að niðurstaða úr slíkri spurningu, skoðanakönnun eða spurningavagni, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir orðaði það, gefur auðvitað ekki rétta mynd ef ljóst er að menn skilja ekki spurningarnar á sama hátt. Þess vegna er oft notuð ákveðin aðferðafræði til að laga spurningalista sem eru svokölluð forpróf. Það er oft gert í rannsóknum, sérstaklega í Háskóla Íslands. Tekinn er ákveðinn hópur fólks, til dæmis einn bekkur í menntaskóla eða einn nemendahópur í háskóla, til dæmis í aðferðafræði, og gert svokallað forpróf á þeim hópi þar sem skoðanakönnun, spurningavagn eða hópur spurninga er lagður fyrir þennan hóp. Síðan er farið yfir hvort spurningarnar hafi verið skiljanlegar og hvort menn telji að þeir hafi uppfyllt þau viðmið sem ég fór yfir að framan. Það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli og að mínu mati er mjög mikilvægt ef ráðast á í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu að vel sé staðið að henni. Ég er fylgjandi því að þjóðaratkvæðagreiðslur verði tíðari á Íslandi í framtíðinni og þess vegna má ekki vaða af stað í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er skýr, þar sem menn vita ekki nákvæmlega hvað gera á við niðurstöðurnar og ekki er alveg ljóst að hvort niðurstöðurnar muni birtast í hinu endanlegu plaggi, þ.e. í stjórnarskránni sjálfri. Hvernig á til dæmis að útfæra svar við spurningunni um hvort það eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskránni. Ef menn segja já, hvernig á það ákvæði þá að vera? Ég hef ekki hugmynd um það ef ég horfi á spurninguna.

Eins er ekki alveg á hreinu að mínu mati að allir skilji hugtakið þjóðareign á sama hátt. Hvað þýðir það? Hv. þm. Illugi Gunnarsson fór ágætlega yfir það í ræðu sinni áðan. Er átt við að þetta sé opinber eign eða hvað er átt við? Ef ég mundi skilja það þannig að þetta væri opinber eign en hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mundi skilja þetta þannig að þetta væri hans eign sem íslensks ríkisborgara, hann ætti þá bara ákveðin prósent í til dæmis sjávarútvegsauðlindum landsins, þá höfum við ekki að svarað sömu spurningunni. Þá verður niðurstaðan skekkt. Og hvernig á að byggja á slíkum niðurstöðum?

Frú forseti. Það er afskaplega stuttur tími sem gefinn er til að fara yfir þetta viðamikla mál en ég vonast til að fulltrúar meiri hlutans sem verið hafa viðstaddir umræðuna geti svarað einhverju af þeim spurningum sem ég varpaði fram og þá sérstaklega varðandi orðalagið í nefndarálitinu um 79. gr.