140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða og tiltölulega fræðilega ræðu þar sem vel var farið yfir þær forsendur sem þurfa að liggja til grundvallar og æskileg vinnubrögð þegar framkvæmd er skoðanakönnun.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að það geti verið, sé meira en líklegt, að það sé með vilja gert að hafa spurningarnar jafnóljósar og þær eru. Annars vegar vegna þess að spurningarnar séu í og með hugsaðar sem yfirlýsingar sem gefa tækifæri til að nota vinsæla frasa og setja þannig mark sitt á umræðuna. Þjóðareign er dæmi um slíkt, nokkuð sem ég held að flestir séu sammála um en menn hafa ólíkan skilning á hvað í felst. Eftir sem áður gefst ríkisstjórninni þá tækifæri til að auglýsa að hún sé að beita sér fyrir þjóðareign. Hins vegar hvort tilgangurinn með þessu óljósa orðalagi sé ef til vill sá að biðja almenning að gefa sér það sem kalla mætti óútfylltan tékka þegar kemur að því að skrifa tillögur að stjórnarskrárbreytingum. Þar nefni ég sem dæmi þriðju spurningu í 2. lið: „… persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“ Þarna er í rauninni verið að biðja um já-svar. Það eru skilaboðin sem eru gefin með þessari spurningu. Þegar það svar er komið ætla stjórnarliðar væntanlega að koma með sína eigin útgáfu af persónukjöri og segja: Við erum ekki að gera annað en að framfylgja vilja þjóðarinnar vegna þess að þjóðin bað um þetta í þjóðaratkvæðagreiðslunni.