140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í innihald einnar breytingartillögu en ákvað á leiðinni í ræðustólinn að spyrja frekar þingmanninn út í það hvort sú áhersla sem lögð er á breytingar á stjórnarskrá eigi sér einhverja stoð í þeirri vinnu sem ég veit að hv. þingmaður innti af hendi í svokallaðri þingmannanefnd. Þar var gert upp við hrunið og það allt saman. Er þar að finna einhverjar sérstakar ábendingar um mikilvægi þess að stokka stjórnarskrána upp frá upphafi til enda? Ég geri mér grein fyrir því að frá nefndinni komu ýmsar tillögur sem þingið hefur tekið upp á arma sína og reynt að ýta áfram og þess háttar. Það er eins og einhverjir haldi að ein af grundvallarforsendum þess að koma Íslandi aftur fram á við sé að breyta stjórnarskrá. Ég hef ekki getað tengt það saman að það að bæta hag heimilanna, koma á styrkari efnahagsstjórn og koma atvinnulífinu af stað tengist einhvern veginn stjórnarskránni, hvað þá að hrunið geri það.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvort markmiðið eða niðurstaðan í vinnu nefndarinnar hafi verið sú að forsenda þess að við förum áfram með þetta þjóðfélag sé að taka stjórnarskrána og stokka hana algjörlega upp á nýtt, skrifa bara nýja stjórnarskrá. Það hefur svolítið legið í loftinu að þetta sé einn af þáttunum sem þurfi að „gera upp“ við það hrun sem hér varð. Mér hefur alltaf þótt langsótt að þetta skipti máli og því væri forvitnilegt að fá innsýn í það hvort þetta tengist á einhvern hátt þeim tillögum og þeirri vinnu sem fór fram í nefndinni.