140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fjölmargar breytingartillögur hafa verið lagðar fram í þessu máli, breytingartillögur er lúta flestar að því að skýra nánar þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- eða eftirlitsnefndar vill leggja fyrir í þeirri atkvæðagreiðslu sem á að fara fram.

Í þessari atrennu langar mig að greina frá breytingartillögu sem við Ásmundur Einar Daðason leggjum fram. Sú tillaga byggist að nokkru á 6. gr. tillagna stjórnlagaráðs, þ.e. að þar er kveðið á um jafnræði. Með leyfi forseta stendur í umræddri 6. gr.:

„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Þetta er allt saman ágætt. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að spyrja ákveðinna spurninga, t.d. í þeirri skoðanakönnun sem þarna á að gera, og þar staldra ég við búsetu. Ég geri mér grein fyrir því að önnur breytingartillaga er svipuð þeirri sem hér er á ferðinni og það kann að vera að svona mismunur skýrist í umræðum hér eða ef þær eru mjög líkar verði önnur kölluð aftur. Sú breytingartillaga sem við leggjum hér fram er um að spurt verði hvort kveða eigi á um það í stjórnarskrá að það sé jafnrétti til búsetu. Þegar maður segir það, jafnrétti til búsetu, er vitanlega verið að vísa til þess að þeir sem ákveða eða hafa kost á því að búa til dæmis vestur á fjörðum eða austur á landi hafi jafnan rétt og tækifæri og þeir sem búa annars staðar eða á þeim stað þar sem hvað best tækifæri eru. Við hljótum alltaf að vera að leita í einhvern samanburð þar sem gæði eru borin saman.

Auðvitað getur þetta verið flókið að einhverju leyti því að einhverjum kann að finnast að það séu annars konar gæði og jafnvel einhverju til þess fórnandi að búa í fámenni eða þvert á móti í fjölmenni. Þessi tillaga okkar er sett fram til að kanna hug þeirra sem eru viljugir til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um þessa spurningu, um jafnrétti til búsetu.

Ég tel að þessi tillaga sé ekki síðri en aðrar breytingartillögur sem hafa komið fram og geti á sama hátt og þær spurningar sem meiri hluti nefndarinnar leggur upp með vel rúmast eða verið í þessari könnun sem á að gera. Væntanlega fara allar þessar tillögur í einhvers konar skoðun eða rýni áður en endanlega verður gengið frá því plaggi þannig að það er mikilvægt að þær kom fram við þessa umræðu. Ég reikna með að fjalla síðar um aðrar tillögur. Þessi tillaga á sér stoð í 6. gr. tillagna stjórnlagaráðs þar sem er kveðið á um jafnræði.

Frú forseti. Það má benda á að ýmsar aðrar greinar stjórnlagaráðs ríma líka við þessa spurningu. Má þar nefna tillöguna um heilbrigðismál.

En þetta er sú tillaga sem ég vildi kynna að sinni og ég mun síðar fara yfir aðrar tillögur.