140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þessu sé einmitt þannig farið. Hluti þeirra spurninga sem þarna eru lagðar til á í raun rót sína að rekja til stefnumála viðkomandi stjórnmálaflokka frekar en til þess máls sem hér er til umræðu. Ég held að það skipti mjög miklu máli þegar við lítum til þessa. Það liggur alveg fyrir að annar stjórnarflokkurinn hefur mjög sterka skoðun þegar kemur að jöfnun atkvæðisréttar.

Enn fremur er áhugavert í ljósi þeirra umræðna sem urðu hér fyrst í haust, sérstaklega eftir ræðu forseta Íslands um skilning hans á tillögum stjórnlagaráðsins og stöðu forsetaembættisins og reyndar þann ágreining sem þá birtist, m.a. við tiltekna fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að ekki séu af hálfu meiri hlutans þegar hann kallar eftir viðhorfum þjóðarinnar til þessara tillagna neinar spurningar sem snúa að embætti forsetans og þá því (Gripið fram í.) að hægt sé að skilja tillögur stjórnlagaráðs með svo afskaplega ólíkum hætti eins og þarna birtist. Forseti Íslands kom í ræðu sinni 1. október með allt annan skilning á tillögum stjórnlagaráðsins en mátti skilja af niðurstöðu fulltrúanna sjálfra og einnig hjá tilteknum fulltrúum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er auðvitað sönnun þess að tillagan sé ófullburða þegar hægt er að túlka hana með svo ólíkum hætti og sést best þegar við erum að tala um þann grundvallarþátt í stjórnskipun landsins sem forsetaembættið er.

Telur virðulegur þingmaður það ekki veikleika í tillögu meiri hlutans að ekki hafi verið spurt sérstaklega um forseta Íslands?