140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu minni hef ég talsverðan áhuga á því að þjóðaratkvæðagreiðslur verði aðeins algengari á Íslandi en verið hefur hingað til en hef af því ákveðnar áhyggjur hvaða áhrif þjóðaratkvæðagreiðsla sem muni fara fram eftir þeim nótum sem hér er lagt til muni hafa á afstöðu, þátttöku og vilja almennings til að taka þátt í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum. Hér er ekki verið að spyrja konkret spurninga og velja á milli tillagna sem eiga að standa í stjórnarskránni heldur er spurt um einhver efnisatriði sem eru síðan algjörlega óútfærð í spurningunni. Í rauninni eru menn sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni ekki að taka afstöðu til ákvæðis sem yrði eða yrði ekki í stjórnarskrá. Af þessu hef ég töluverðar áhyggjur og mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort hann deili þessum áhyggjum með mér eða hvort honum finnist þetta vera rétt vinnulag. Ég teldi að það væri betra vinnulag að Alþingi kláraði að útfæra þær tillögur sem þinginu þætti rétt að leggja fram og leitaði svo afstöðu þjóðarinnar til þeirra fullmótuðu tillagna. Það teldi ég rétt vinnulag sem mundi skila okkur betri árangri.

Síðan langar mig örstutt að bæta við einni stuttri spurningu um það hvernig við samþykkjum nýja stjórnarskrá. Í gildi er stjórnarskrá á Íslandi og í 79. gr. er fjallað um það með hvaða hætti stjórnarskrá verður breytt. Engu að síður er fjallað um það í nefndaráliti meiri hlutans að það sé skoðun hans að að aflokinni síðari samþykkt þess frumvarps sem verður á endanum lagt fyrir á þinginu (Forseti hringir.) eigi að bera það undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvaða afstöðu hefur hv. þingmaður til þessa?