140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem ég ætlaði að íhuga er ég núna búinn að átta mig á því hvað hv. þingmaður var að spyrja um og ég er að sjálfsögðu sammála hv. þingmanni um að það þurfi að gera ráðstafanir í núgildandi stjórnarskrá ef á að bæta þessu við. Ég skil hana að minnsta kosti þannig.

Hv. þingmaður spyr um framsal valds. Ég tel einsýnt að það eigi að spyrja um það. Þetta er gríðarlega mikilvæg spurning og ekki síst í dag þegar við erum í aðlögunarferli að Evrópusambandinu sem snýst um að framselja meira vald en við höfum nokkru sinni framselt. Það er bara eðlilegt að spyrja slíkra spurninga og ég vil að sjálfsögðu líka nota ferðina fyrst við erum líklega að fara að efna til þessara kosninga að láta greiða atkvæði um það hvort menn vilji halda áfram eða klára þetta Evrópusambandsferli sem varla sér í raun fyrir endann á.

Maður veltir svolítið vöngum yfir því að sumir þeirra sem sækja það mjög hart að þessi atkvæðagreiðsla fari fram, telja hana mjög mikilvæga, eru sömu aðilar og vildu ekki að þjóðin greiddi atkvæði í upphafi ferlisins um Evrópusambandið. Þeir vildu ekki að þjóðin greiddi atkvæði um Icesave-málið en það var líklega jafngott að þjóðin fékk að greiða atkvæði um það, segi ég bara. Ég minni á að það var býsna góð þátttaka í atkvæðagreiðslunni um þetta Icesave-mál og það er bæði eðlilegt og mikilvægt að þjóðin fái að segja álit sitt á því ef það verður niðurstaðan að fara í þessa ferð, ég tek það alltaf fram vegna þess að ég er á móti því að fara í þessa skoðanakönnun þannig að það liggi fyrir.