140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég mun í þessari stuttu ræðu fara yfir nokkur álitaefni í tengslum við þetta mál. Ég rifja þau upp vegna þess að málið snýr að þjóðaratkvæðagreiðslum og er stórt.

Það væri æskilegt ef við gætum náð samstöðu um það að halda þjóðaratkvæðagreiðslu reglulega, ekki bara til að halda atkvæðagreiðslu heldur væri hún tæki sem við mundum nýta í stjórnmálum á Íslandi til að ná lýðræðislegri niðurstöðu. En ef við ætlum að gera það þá þurfa þjóðaratkvæðagreiðslur að uppfylla ákveðin skilyrði. Mér hefur fundist umræðan um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt á hinu háa Alþingi og sömuleiðis í almennri umræðu þannig að menn skauta frekar létt fram hjá grundvallaratriðum.

Það er misskilningur að við höfum ekki notað þjóðaratkvæðagreiðslur. Við gerðum það nokkuð fyrir árið 1944, ég veit ekki hvort fólk er almennt meðvitað um það. Árið 1908 kusum við um áfengisbann og samþykktum það með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Þátttakan var 73% og 60% greiddu atkvæði með áfengisbanni. 1916 greiddum við atkvæði um þegnskylduvinnu og var einungis 53% þátttaka en 92% sögðu nei. Síðan þekkjum við betur umræðuna um setningu sambandslaga sem að vísu aðeins 44% tóku þátt í og yfirgnæfandi meiri hluti samþykkti. Svo afnámum við áfengisbannið 1933 og þá tóku 45% landsmanna þátt og tæplega 60% sögðu já. Við þekkjum svo atkvæðagreiðslurnar 1944, 2010 og 2011.

Ef við ætlum að beita þjóðaratkvæðagreiðslum þurfum við að taka afstöðu til nokkurra þátta. Í fyrsta lagi hvort þær eigi að vera ráðgefandi eða bindandi. Í þessu máli höfum við tekið ákvörðun um að hafa atkvæðagreiðsluna ráðgefandi, eins konar stóra skoðanakönnun. Það er alveg skýrt í þessu máli að við erum að tala um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða ákveðna gerð af skoðanakönnunum.

Í öðru lagi er nokkuð sem ég hef ekki orðið var við að hafi verið rætt hér. Skiptir það einhverju máli hversu margir greiða atkvæði? Hefur það jafnmikið vægi ef 10% taka þátt og 95% eða 99%? Þetta skiptir máli því að þegar menn hafa ekki hugsað fyrir þessu þá hafa oft komið nokkuð sérkennilegar niðurstöður. Svo við lítum bara til Íslands og til höfuðborgarinnar þá var t.d. einhvern tíma atkvæðagreiðsla um hundahald. Þátttakan var hvorki meiri né minni en 16% og ég veit ekki til þess að neinn í borginni eða borgarstjórn hafi fengið þá hugmynd að fylgja henni eftir enda var það ekki gert. Þegar greidd voru atkvæði um flugvöllinn tóku 30% þátt og þrátt fyrir að stór orð hefðu verið höfð um annað varð niðurstaðan sú, þrátt fyrir allan tilkostnað, fyrirhöfn og þó nokkuð mikla umræðu, að engin borgaryfirvöld hafa haft það á stefnuskrá sinni að fara eftir þeirri atkvæðagreiðslu. Mér finnst skrýtið að ég hafi hvorki heyrt það í ræðu né séð vikið að þessum þáttum í nefndaráliti meiri hlutans. Nú má það vera að ég hafi ekki tekið eftir því en það kæmi mér á óvart ef svo væri.

Í þriðja lagi eru það kynningarmál. Að vísu kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að mikilvægt sé að Alþingi gangist fyrir öflugri kynningu á málefninu og skýringu á því hvernig ferli málsins verði í framhaldinu. Þá þurfa menn auðvitað að taka ákvörðun um hvert ferli málsins verður í framhaldinu, en hvernig ætla menn að tryggja það að hér verði kynnt þau sjónarmið sem liggja til grundvallar? Hér liggja mjög margar spurningar fyrir og eftir því sem ég best veit, þegar haldnar eru þjóðaratkvæðagreiðslu eins og um aðild viðkomandi lands að Evrópusambandinu eða öðru slíku, þá reyna menn að setja eitthvert ferli í gang þar sem ólík sjónarmið og sjónarhorn fá að njóta sín. Við sjáum merki þess að við erum að styrkja já- og nei-hreyfingar eftir því sem ég best veit hér á landi og hefur verið nokkur umræða um það. En í þessu máli, ef við tökum tillögur stjórnlagaráðsins fyrir, held ég að hægt sé að fullyrða að almennt sé fólk ekki vel meðvitað um þær 114 greinar sem eru í tillögum stjórnlagaráðs. Það hefur svo sannarlega verið ákveðin umræða en hún hefur verið mjög einhliða. Þeir sem sátu í stjórnlagaráði hafa duglegir haldið sjónarmiðum sínum á lofti en mér vitanlega hafa ekki komið fram nein samtök eða skipulega verið kynnt mótrök við þeim tillögum sem liggja fyrir.

Við erum kannski dekruð ef við göngum eingöngu út frá því sem hefur verið undanfarið vegna þess að í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunni vorum við á hinu háa Alþingi búin að sjá til þess að nokkurn veginn hver einasti Íslendingur og auðvitað fjölmiðlar líka vissu nokkurn veginn allt um málið sem hægt var að vita. Ég efast um það að ef við tækjum eitthvert einstakt mál fyrir að hægt væri að finna þess dæmi þar sem almenningur væri jafn vel með á nótunum, þekkti málið jafn vel og Icesave-málið. Þetta var eftir að við höfðum rætt það lengst af öllum málum í þinginu, það var búið að vera stöðugt í fjölmiðlum og tekist á um það, sérstaklega innan lands en utan líka. En þetta er ekki sjálfgefið.

Við erum að fara í stóra skoðanakönnun sem þingið ætlar sér síðan að taka mið af. Það væri mjög slæmt ef við fengjum niðurstöðu — ég ætla ekki að fara í það núna, ég næ ekki í stuttri ræðu minni að fara yfir spurningarnar sem ég tel vera gallaðar því að ég tel að erfitt verði að vinna úr þeim sama hver niðurstaðan verður — þar sem stór hluti fólks kæmist að því að kynningu málsins hefði verið það ábótavant að af þeim sökum væri erfitt að vinna úr málinu. Það er sama í hvaða flokki við erum og hvaða skoðanir við höfum, það er ofsalega slæmt að við höfum ekki getað komið okkur saman um grunnreglur í þessum málum.

Við samþykktum lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá tókum við ekki á þessum málum. Við tókum ekki á þessum grundvallarmálum sem eru ekki eitthvað sem mér datt í hug. Þegar maður lærir um þjóðaratkvæðagreiðslur, t.d. í því fagi sem ég var í, er þetta það fyrsta sem maður lærir. Það þarf að uppfylla þessi skilyrði ef þetta á að takast vel. Því miður, kannski út af ástandinu á Alþingi eða af einhverjum öðrum ástæðum, höfum við ekki borið gæfu til að setja þessa grunnreglu ef niðurstaðan verður sú, sem er líklegt, að við leggjum einhverjar spurningar fyrir þjóðina. Við höfum ekki uppfyllt þau grundvallarskilyrði sem verður að gera ef við ætlum að ná góðri niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er ég ekki að tala um að fá já eða nei í einhverju máli heldur að atkvæðagreiðslan takist vel og við séum með marktæka og góða niðurstöðu sem við getum nýtt til ákvarðanatöku. Ég er ekki að tala um efni spurninganna, til eða frá. Ég er bara að tala um að okkur vantar grunninn að vönduðum og góðum þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar sem þær takast vel og þar sem þær eru haldnar huga menn að þessum málum. Ég held því miður að við höfum ekki uppfyllt þessi skilyrði og sömuleiðis held ég að við höfum ekki uppfyllt það að vera með vandaðar spurningar sem auðvelt er að vinna úr eða hægt að draga marktæka niðurstöðu af eftir atkvæðagreiðslu.