140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða er nokkuð á aðra lund en það sem sagt hefur verið hér síðustu hálftímana eða klukkutímana. Ég átta mig ekki alveg á hvað þingmaðurinn á við með því að segja að við höfum ekki lagt grunn að vönduðum þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég tel að við höfum gert það. Ef þingmaðurinn á við að setja þurfi einhver mörk um lágmarksþátttöku og annað slíkt þá er í fræðum um þessi efni ekki talið rétt að gera það. Ég veit að fólk greinir á um það en í þeim fræðigreinum sem ég hef lesið um þessi efni er mælt gegn því að sett sé eitthvert lágmark vegna þess að þá geti fólk greitt út af fyrir sig með því að taka ekki þátt. Ég hallast að því að það sé rétt og tel því að þetta skilyrði sé alveg uppfyllt.

Síðan er spurningin um hvernig á að kynna málið. Ljóst er að staðið verður fyrir kynningu á því héðan frá Alþingi og þeir sem kynna sér málið hljóta þá að gera upp hug sinn hvort þeim þóknast það sem þar er sett fram eður ei. Þeir sem vilja að fólk segi nei hljóta þá að beita sér fyrir því og koma því efni á framfæri sem þeir telja rétt í þeim efnum. Ég tel að við séum ekki á vondri leið í því.

Þingmaðurinn útskýrir það þá nánar hvað hann á við ef ég hef ekki skilið það rétt hvað hann var að hugsa um.