140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

aðildarviðræður við ESB.

[10:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það blasir við öllum nema kannski hæstv. forsætisráðherra að það er minnihlutastjórn í landinu og síðustu viðræður við Hreyfinguna staðfesta það endanlega. Það er eðli ríkisstjórnar í slíkri stöðu að hún þarf að semja sig í gegnum hvert einasta mál og setja brýn mál á dagskrá en ekki átakamál, eins og ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra hefur kosið fram til þessa.

Í fyrradag lýsti hv. þm. og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason þeirri skoðun sinni að eitt af grundvallarmálum ríkisstjórnarinnar, að sönnu átakamál, væri komið í ógöngur, þ.e. aðildarviðræðurnar að Evrópusambandinu. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að til greina kæmi að spyrja þjóðina að því hvort halda skyldi áfram með viðræðurnar. Þetta er auðvitað mjög merkileg yfirlýsing frá einum af áhrifamestu mönnum Samfylkingarinnar og sérstaklega mikilvæg í ljósi þeirrar pólitísku stöðu sem ríkisstjórnin er í. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að hæstv. forsætisráðherra geri sér grein fyrir staðreyndum og stöðvi aðildarviðræðurnar og beri þær undir þjóðina.