140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[10:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Menn hafa látið að því liggja að þeir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem greiddu atkvæði með aðildarumsókn gerðu það gegn sínum vilja eða gegn vilja flokksins. Svo er ekki. Sú sem hér stendur greiddi atkvæði með aðildarumsókn þar sem ég taldi tímabært að þjóðin gæti tekið afstöðu til þessarar mikilvægu spurningar og að sú spurning ætti erindi til þjóðarinnar en væri ekki til lykta leidd hér í þingsal. Þess vegna greiddi ég atkvæði með tillögunni en var þá afar sannfærð um að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Sú skoðun mín hefur styrkst ef eitthvað er og ég held að það þurfi ekki mikla stjórnmálaspeki til að sjá að staða Evrópu er mjög flókin og vandasöm og er vandséð að það sé skynsamlegt fyrir Ísland að nálgast Evrópusambandið með aðild núna.

Hins vegar verður það sífellt meira krefjandi viðfangsefni stjórnmálanna að koma því þannig fyrir að þjóðin geti tekið afstöðu til efnislegra þátta og ég tel að slík atkvæðagreiðsla þurfi að eiga sér stað eigi síðar en við næstu þingkosningar, þ.e. að þjóðin geti tekið afstöðu til þeirra efnislegu þátta sem þá liggja fyrir í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins því að ótækt er að draga það ferli meira á langinn en svo og þjóðin þarf þá að koma að því máli. Því miður er ekki endilega útlit fyrir að við verðum með samning í höndunum en þjóðin þarf sannarlega að geta tekið afstöðu til aðildar að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili. Ég held að það sé mikilvægt fyrir framtíðina.