140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[11:03]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að hæstv. forsætisráðherra þurfi að lesa sér aðeins betur til um þessa IPA-styrki því að þetta eru beinir aðlögunarstyrkir. Þetta eru eins konar þróunarstyrkir sem veittir eru alfarið bundið við umsóknarland, land sem er í umsóknarferli að Evrópusambandinu og hefur sótt um til að komast í sambandið. Þá metur Evrópusambandið það eftir að lög og reglugerðir viðkomandi umsagnarríkis og Evrópusambandsins hafa verið borin saman hvað þarf að gera til að það uppfylli þau skilyrði sem Evrópusambandið setur. Til þess eru þessir aðlögunarstyrkir og það eru gerðir samningar til næstu þriggja ára. Það er skýrt kveðið á um það í skýrslu utanríkisráðherra að þetta eru aðlögunarstyrkir til að aðlaga íslenska stjórnsýslu og byggja upp stofnanir á Íslandi með tilliti til Evrópusambandsins.

Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu um (Forseti hringir.) stöðu Evrópusambandsmálanna og forsætisráðherra hefur tjáð sig mjög afdráttarlaust um að þetta sé það sem við þurfum að gera eins hratt og nokkur kostur er, þ.e. að komast inn í Evrópusambandið, að þetta sé lausn allra mála, (Forseti hringir.) ég tala nú ekki um að taka upp evru. Ég spyr: Er ekki ástæða til að taka í alvöru sérstaka umræðu eins og ég hef óskað eftir við yfirmann ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) forsætisráðherra, sem allra fyrst? Ég ítreka þá beiðni mína sem hefur legið fyrir í bráðum þrjá mánuði.