140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á sjómannaafsláttinn sem er náttúrlega hluti af kjörum þeirrar stéttar. Það má segja að hann falli undir umræðu um stjórnarskrá vegna þess að sjómenn eiga að njóta jafnræðis á við aðra borgara sem vinna fjarri heimilum sínum, eins og sölumenn og aðrir sem fara til útlanda til að selja fisk og aðrar vörur og njóta dagpeninga.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann skilji hvers vegna sjómenn fái ekki dagpeninga þegar þeir eru á sjó. Er þetta spurning um að þeir borgi fyrir fæði og húsnæði? Þeir búa um borð, fá húsnæði og þeir fá fæði um borð sem er ekki ódýrt, það er dýrasta fæði í landinu því kokkurinn er með hlut. Spurningin er þessi: Væri ekki ráð að hækka laun sjómanna svo sem eins og um þúsundkall á dag og láta þá borga þá upphæð fyrir fæði og húsnæði? Síðan fengju þeir dagpeninga eins og aðrir, sem eru töluvert mikið hærri en sem nemur afslættinum og þeir mundu njóta sömu kjara og aðrir í landinu.