140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór aftur að tala um sjómannaafslátt. Nú hef ég mörgum sinnum flutt frumvarp um að afnema sjómannaafsláttinn (Gripið fram í.) vegna þess að það er skekkja í skattkerfinu, sjómenn eigi að borga sömu skatta og aðrir. En ég sé ekkert sem mælir gegn því að sjómenn fái dagpeninga eins og allir aðrir sem vinna fjarri heimilum sínum. Ég skil ekki af hverju sjómenn fara ekki hreinlega fram á að fá dagpeninga og það yrði síðan skattfrjálst eins og hjá öðrum. Þetta mætti gera með því að láta þá borga hluta af fæði og húsnæði, einhverja óveru kannski, og síðan fengju þeir mjög myndarlega dagpeninga, nákvæmlega eins og aðrir sem fara til útlanda. Það skiptir ekki máli hve miklu menn eyða í hótel, gistingu og fæði heldur fá menn dagpeninga samkvæmt úrskurði opinbers aðila sem ákveður hvað dagpeningarnir eru miklir. Ég skora á sjómenn og samtök þeirra að drífa í að koma þessu á koppinn, því ég sé ekki annað en að þetta sé fundið fé fyrir sjómenn og komi í staðinn fyrir sjómannaafslátt, sem er ákveðin skekking á skattkerfinu.