140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Í kjölfar hrunsins mikla sem varð í október 2008 komu upp raddir um að það bæri að endurskoða stjórnarskrána og vildu margir skrifa nýja stjórnarskrá vegna þess að stjórnarskráin væri það ófullkomin að hún hefði leitt af sér hluti eins og við sáum í hruninu. Það er náttúrlega sjónarmið út af fyrir sig en þeim hinum sömu hefur ekki tekist að benda á hvað það var eða hverju var ábótavant í stjórnarskránni sem við erum með núna á Íslandi, eða grunnlögunum, sem leiddi til þessa svokallaða hruns. Jafnframt voru aðrir sem héldu því fram að haustið 2009 eða í kjölfar hrunsins hefði átt sér stað bylting á Íslandi sem kölluð hefur verið búsáhaldabyltingin. Þeir bentu á að allar byltingar kalli á endurskrift stjórnarskrár, nú verði búin til ný grunnlög og nýjar leikreglur fyrir þjóðfélagið.

Byggt á þeim hugmyndum og því að í gegnum áratugina hefur verið talað um að endurbæta þurfi núverandi stjórnarskrá og mikil vinna farið fram í því var farið út í það að boða til kosninga um stjórnlagaráð sem átti að endurskrifa stjórnarskrána. Í þeim kosningum var ákaflega lítil kosningaþátttaka og samhljómur virtist ekki vera um það, sem þeir sem héldu því fram að endurskoða þyrfti stjórnarskrána predikuðu að gjörbreyta ætti grunnlögum okkar Íslendinga. Það tókst ekki betur til en svo að Hæstiréttur Íslands, æðsta dómsvaldið, dæmdi þær kosningar í stjórnlagaráðið ógildar, ólöglega hefði verið staðið að kosningunum og því bæri að ógilda þær.

Jafnframt var það mikill galli á kosningunni hve gríðarlega lítil kosningaþátttakan var. Við sáum það til að mynda að sá maður sem fékk flest atkvæði í kosningunni átti einungis stuðning um 12% kosningarbærra manna. Því er óhætt að segja að þeir sem voru kosnir hafi hvorki haft víðtækt né sterkt umboð þótt kosningin hefði verið dæmd lögleg. En áfram var haldið og ríkisstjórnin breytti einfaldlega hlutverkinu og skipaði formlega nefnd sem samanstóð af þeim einstaklingum sem kosnir höfðu verið í ógildri kosningu og það góða fólk settist niður og skrifaði stjórnarskrá handa okkur Íslendingum.

Það starf hefur staðið núna í heilt ár, þ.e. heilt ár er síðan kosningarnar voru. Stjórnlagaráðið skilaði af sér vinnu sinni síðasta haust eða seinni part síðasta sumars og síðan hefur málið verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En það er sérstakt að málið hefur ekki verið til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni, þ.e. árangur þess mikla starfs sem byggði á þjóðfundi og síðan á vinnu stjórnlagaráðs sem skilaði af sér fullmótuðum drögum að stjórnarskrá, að því er margir í ráðinu sögðu. Það hefur ekki hlotið neina efnislega umfjöllun í þinginu heldur hefur málið snúist um að nú þurfi einhvern veginn að koma því út til þjóðarinnar að þjóðin eigi að geta sagt álit sitt á því hvort byggja eigi nýja stjórnarskrá á þeim drögum.

Í þessari tillögu að þjóðaratkvæðagreiðslu eru bornar fram spurningar sem þeim sem í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eru, meiri hlutanum þar, þykir forvitnilegt að fá fram. Það er allt saman gott og blessað en á sama tíma, nú nýverið, var skipaður hópur sérfræðinga til að fara yfir drög stjórnlagaráðs að stjórnarskrá. Það gerist á sama tíma og menn leggja til að þetta fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vinnubrögðin í málinu eru því mjög sérstök, svo vægt sé til orða tekið. Það er afar sérstakt að á sama tíma og hér liggur fyrir þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu skuli vera að störfum sérfræðinganefnd sem er að endurskoða þessi drög stjórnlagaráðs.

Ég er ekki alveg klár á því hvað kemur út úr þeirri vinnu en miðað við samtöl við lögfróða menn og það sem okkar vísustu menn í stjórnskipunarrétti og stjórnarskipunarlögum hafa lýst yfir opinberlega eru allar líkur á því að umtalsverðar breytingar verði á drögunum, þó ekki væri nema vegna tæknilegra hluta sem eru í þeim þar sem því hefur verið haldið fram að greinar stangist hver á aðra og það gangi ekki upp lögfræðilega eins og þetta er. Til þessara draga á þjóðin að taka afstöðu. Þetta er um aðferðafræðina.

Síðan komum við að því til hvers Íslendingar eiga að taka afstöðu. Ef af þjóðaratkvæðagreiðslu verður, þ.e. ef tillagan verður samþykkt og í framhaldinu haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, hljómar fyrsta spurningin svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Þrír valkostir eru: „Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá …“

„Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá.“

Síðan er valkostur þar sem fólk tekur ekki afstöðu.

Um þessa grunnspurningu má hafa mörg orð. Ljóst er að það verður afar erfitt fyrir þann sem kemur inn í kjörklefann og ætlar að taka afstöðu til þessara spurninga að vita um hvað verið er að greiða atkvæði.

Í fyrsta lagi er í gangi vinna núna þar sem verið er að yfirfara drögin að stjórnarskránni. Í öðru lagi hefur ekki farið fram nein efnisleg umræða um drögin í Alþingi. Í þriðja lagi er afar flókið fyrir hinn almenna borgara að vera með stjórnarskrána á takteinum, núgildandi stjórnarskrá, og þau drög sem búið er að setja fram þannig að hægt sé að taka afstöðu til hennar.

Í annarri spurningunni sem borin er fram í þingsályktunartillögunni eru Íslendingar, ef farið verður út í þjóðaratkvæðagreiðsluna, beðnir um að svara efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá. Fyrsta spurningin er:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?“

Valkostirnir eru þrír: Já, nei, tek ekki afstöðu.

Við búum við fulltrúalýðræði, þ.e. Íslendingar kjósa sér fulltrúa til að sitja á þingi sem fer með löggjafarvaldið eins og allir vita. Það eru vissulega skiptar skoðanir milli stjórnmálahreyfinga um hvernig líta beri á hlutina eins og gengur, annars þyrftum við ekki að vera í stjórnmálaflokkum eða hafa stjórnmálaskoðanir ef allir væru sammála. En um eitt virðast allir flokkar á Alþingi vera sammála og það er að í stjórnarskrá Íslands þurfi að skilgreina betur eignarréttinn á náttúruauðlindum okkar Íslendinga. Náttúruauðlindirnar sem eru hvað verðmætastar núna, þær sem hafa einhvers konar peningalegt gildi — auðvitað eru náttúruauðlindir okkur gríðarlega mikilvægar, náttúran á Íslandi er mikilvæg auðlind en hún hefur ekki markaðsverð getum við sagt — eru þær náttúruauðlindir sem hafa beint markaðsverð. Það er annars vegar fiskauðlindin í sjónum og hins vegar orkuauðlindirnar. Þær hafa markaðsverð.

Eignarrétturinn á orkuauðlindum í vatnsföllum og í iðrum jarðar í formi háhita er skýr. Að vísu eru deilumál uppi einhvers staðar en það er eitthvað sem verið er að leysa fyrir dómstólum í þjóðlendunefnd eða öðru slíku. En að stofninum til eru vatnsréttindi á Íslandi að 30% í einkaeigu og ríki og sveitarfélög eiga í kringum 70%. Eignarrétturinn þar virðist vera vel skilgreindur að stofninum til, en aftur á móti um fiskauðlindina, þar er ómögulegt að skilgreina eignarrétt á sama hátt vegna þess að fiskur eðli sínu samkvæmt ferðast um úthöfin og nálægt landi og þar gildir einkaeignarréttur ekki. Því hefur verið brugðið á það ráð að koma upp svokölluðum nýtingarrétti og hann er einfalt að skilgreina eftir hefðbundnu eignarréttarfyrirkomulagi.

Hér er talað um að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en erfitt er að skilja hvað þjóðareign er. Þar eru uppi ólíkir skólar.

Í annarri spurningu, öðrum lið, er spurt:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?“

Valkostirnir eru: Já, nei, tek ekki afstöðu.

Erfitt er að spá fyrir um hvernig fólk ætlar að taka afstöðu til þeirrar spurningar vegna þess að á engan hátt er gefið til kynna hvernig ákvæðum um þjóðkirkju yrði hugsanlega breytt. Það eru hugsanlega margir sem gætu vel hugsað sér að breyta orðalagi í stjórnarskrá um þjóðkirkju Íslendinga, en þetta orðalag felur í sér að það væri jafnvel hægt að afnema þjóðkirkjuna sem hina eiginlegu þjóðkirkju okkar Íslendinga með því einfaldlega að taka út ákvæði úr stjórnarskrá. Ekki er víst að þeir sem vildu hnika eitthvað til orðalagi mundu segja já við spurningunni ef hún fæli þá hættu í sér að kirkjan yrði ekki lengur þjóðkirkja okkar Íslendinga.

Næst er það persónukjör.

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“

Ég geri ekki miklar athugasemdir við þá spurningu.

Síðan kemur fjórði liðurinn:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Þetta yrði meiri háttar breyting á kosningafyrirkomulagi á Íslandi vegna þess að eins og við vitum er bætt upp fyrir fámenni í kjördæmum með því að atkvæði í þeim hafi meira vægi en í fjölmennum kjördæmum. Þetta er gert til að rödd hinna fámennu kjördæma heyrist á Alþingi og endurspeglist í atkvæðagreiðslum á Alþingi.

Talað hefur verið um að mikið óréttlæti sé falið í þessu en til að varpa ljósi á hversu mikilvægt þetta er þá held ég að þeir sem hafa aðhyllst það að við Íslendingar ættum að ganga í Evrópusambandið ættu kannski að hugsa um þetta atkvæðavægi í samhengi við Evrópusambandið. Halda þessir sömu aðilar að jafnt atkvæðavægi ríki innan Evrópusambandsins þegar verið er að kjósa til Evrópuþingsins? Halda þeir einstaklingar það? Munu þessir sömu einstaklingar berjast fyrir jöfnum atkvæðarétti ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu og þar af leiðandi fengi rödd Íslands á engan hátt að njóta sín innan þess sambands? Hefur þetta yfirleitt verið hugsað til enda? Ég held ekki.

Í fimmta liðnum er talað um hvernig á að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Því miður vinnst mér ekki tími til að tala um það mál auk annarra atriða sem ég ætlaði mér að tala um. Ég verð því að bíða með það þangað til í seinni ræðu minni.