140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í tillögurnar eins og þær liggja fyrir núna, kannski ekki þær breytingartillögur sem einstakir þingmenn hafa lagt fram. Getur hv. þingmaður á þessum stutta tíma farið yfir þau helstu atriði í fyrirliggjandi drögum sem hann telur að eigi alls ekki þar heima og ættu frekar heima í lögum frá Alþingi?

Ég vil að nokkru leyti taka undir með hv. þingmanni þótt ég deili ekki skoðun hans á málefnum landsbyggðarinnar. Ég tel að það væri mjög skynsamlegt að styrkja stöðu landsbyggðarinnar í þessari vinnu allri. Það væri fróðlegt að fá fram hjá hv. þingmanni hvaða atriði í fyrirliggjandi tillögum hann telur að ættu frekar heima í lagafrumvörpum en í stjórnarskrá Íslands.