140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta ræðu. Ég vildi aðeins halda áfram með þá umræðu sem spannst á milli hv. þingmanns og hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar um það sem þarf að standa í stjórnarskrá og kjarnann í henni. Ég held að í dag hafi allir viðurkennt og margir bentu reyndar á það strax í upphafi að sú greinargerð sem fylgdi með tillögunum sem komu frá stjórnlagaráði var mjög ófullnægjandi, hún skapaði fleiri spurningar en svör. Síðan átti að efna til skoðanakönnunar en sú hugmynd hefur þróast út í það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur komið með fullt af tillögum og þingmenn hafa síðan komið með fleiri tillögur.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvernig það að skapa kjarnastjórnarskrá með grunngildum, sem ég get alveg tekið undir að er það mikilvæga, andspænis því að henda út til þjóðarinnar lista með fjölmörgum spurningum um allt milli himins og jarðar — mun slík skoðanakönnun að lokum skila til þingsins þeim ávinningi að það viti betur hver sé vilji þjóðarinnar? Þá ætti fyrsta spurningin kannski að vera: Hvernig á stjórnarskráin að vera uppbyggð? Á hún að vera einföld eða flókin? Á hún að taka á þeim spurningum sem voru í umræðunni áðan?

Ég vil líka nefna eitt undir lokin sem komið hefur fram að þessu fylgir líka auðvitað verulegur kostnaður, lýðræðið kostar vissulega peninga. En vegna þess að ávinningurinn verður kannski takmarkaður mætti hugsa sér að menn gerðu hreinlega skoðanakönnun meðal íbúa þjóðarinnar eins og Capacent gerir, (Forseti hringir.) til að ná fram sömu niðurstöðu, þ.e. fá fram hugmyndir fólks um allt milli himins og jarðar.

(Forseti (ÁI): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að virða tíma í andsvörum sem samkvæmt þingsköpum mega ekki taka lengri tíma en 15 mínútur.)