140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þjóðfundurinn hafi gefið stjórnmálamönnum, þeim sem hafa lagasetningarvaldið, upplagt tækifæri til að skynja einhverja strauma sem liggja í þjóðfélaginu. Ég held að niðurstöður þjóðfundar hafi gefið það. Ég held að afraksturinn af þeim fundi sé ágætisveganesti í lagavinnuna.

Hitt verð ég að segja að það væri hættuleg ferð að gera þau drög sem við höfum núna að stjórnarskrá. Ég tel að það væri mjög hættuleg ferð enda höfum við séð það á vinnubrögðunum hver vilji ríkjandi stjórnvalda er. Vilji ríkjandi stjórnvalda er ekki að gera þau að nýrri stjórnarskrá, alls ekki, vegna þess að búið er að draga þetta mál í heilt ár. Núna er verið að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu í kringum þetta, úr henni komi einhver niðurstaða sem verði notuð í lagfæringar og slíkt. Við sjáum að það er ómöguleiki í tímarammanum. Ef framkvæmdin verður í október eða byrjun nóvember verða aðeins örfáir mánuðir eftir til kosninga. Ég held að allir heilvita menn sjái að það er engin meining með þessu, það er verið að teygja lopann og á endanum verður sagt: Stjórnarandstaðan stóð í vegi fyrir þessu öllu, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.