140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Það er eðlilegt að maður velti fyrir sér hvað ákveðnar greinar þýða og hvernig á að túlka þær og hvernig á að ná þeim í framkvæmd í gegnum lagasetningu. Ég velti fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann út í 8. gr. í tillögu stjórnlagaráðs sem fjallar um mannlega reisn. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Ég held að við séum öll sammála um að auðvitað eiga allir að fá tækifæri og aðstæður þeirra að vera þannig að þeir geti lifað með reisn.

Þegar skýringar stjórnlagaráðs við þessa tillögu eru skoðaðar er maður hins vegar engu nær um hvernig eigi að ná þessum markmiðum. Við hvað er átt? Hvað þýðir það að setja svona lagað í stjórnarskrá? Hver eru viðmiðin? Það sem mér kann að finnast eðlilegt eða sanngjarnt er ekki endilega það sama og hv. þingmanni finnst og sú merking sem ég tel að þetta orðalag, mannleg reisn, hafi, er ekki endilega hin sama og hv. þingmanns. Það eru engar leiðbeiningar um það eða ég fæ ekki séð nokkrar leiðbeiningar um það hvernig lagafrumvörp sem koma í framhaldi af þessu geti mögulega litið út.

Það sama má segja um aðrar greinar, t.d. 12. gr. sem fjallar um rétt barna, þar er sagt að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Um það er yfirleitt deilt þegar verið er að tala um hag barna.