140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:40]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að svona þrenging á því hvernig vantraustsyfirlýsing er lögð fram takmarkar náttúrlega völd stjórnarandstöðu, og sérstaklega þegar hún er samsett af mörgum flokkum, þá get ég ímyndað mér að erfitt sé að ná samstöðu um eftirmann forsætisráðherra.

Það sem skiptir kannski mestu máli varðandi vantraust á ríkjandi stjórnarmeirihluta og þar með forsætisráðherra er að þeir flokkar sem standa að henni geti lagt fram hvað taki við. Það getur vel verið að um það sem á að koma, eftir að búið er að samþykkja vantraustsyfirlýsingu, séu hópar úr stjórnarandstöðu og stjórnarliðum sammála. Það er allt önnur atkvæðagreiðsla, mundi ég halda, vegna þess að það þarf ekki endilega að vera eftir pólitískum línum hvað á að taka við, eða stjórnarandstaðan annars vegar og stjórnarliðar hins vegar. Fyrst þarf bara að fá fram staðfestingu á því að ríkisstjórnin sé fallin og síðan er náttúrlega næsta atkvæðagreiðsla sem er þá annaðhvort um kosningu eða um nýjan forsætisráðherra, sem dæmi.

Annars finnst mér tillögur stjórnlagaráðs um forsætisráðherra gefa honum allt of mikil völd, ég hef áhyggjur af því, eins og varðandi ráðherraval og annað. Maður fer að velta því fyrir sér hvort Vilmundur heitinn Gylfason hefði ekki verið mjög gagnrýninn á þessar tillögur stjórnlagaráðsins (Forseti hringir.) og komið fram með sína tillögu um að kjósa forsætisráðherra sérstaklega.