140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom ágætlega inn á einmitt þetta að semja. Það er það sem margir hafa kallað eftir í þinginu á umliðnum þremur árum og nú er tæpt ár í kosningar og við erum ekki enn farin að sjá að það verði samið í nokkrum sköpuðum hlut. Ég vil meina að það sé einn helsti akkillesarhæll forustumanna ríkisstjórnarflokkanna að geta ekki í þessum stóru málum farið eftir ráðleggingum, hlustað eftir því sem stjórnmálamenn í hinum ýmsu flokkum, þar á meðal í stjórnarandstöðunni, hafa að segja í ákveðnum málum. Þess vegna er þingið að mörgu leyti í þeirri sjálfheldu sem það er í núna.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann aftur, og þakka henni svörin við fyrri spurningu minni. Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni, þó að ég sé efnislega ósammála þeirri leið sem er verið að fara — gott og vel, við stöndum frammi fyrir því að menn eru að reyna að fara í þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu — að það hefði verið ágætt að menn hefðu einu sinni sameinast um spurningarnar og farið í þær í þeirri sátt sem við erum að kalla eftir. Það er ekki gert og þess vegna eru ýmsar tillögur komnar fram, m.a. af hálfu fulltrúa okkar sjálfstæðismanna í stjórnskipunarnefndinni. Ég hef líka sett fram tillögu eða spurningu um að fækka þingmönnum úr 63 í 51. Ég hef þó alla jafna ekki verið gjörn á að taka undir það að fækka þingmönnum vegna þess að ég tel hlutverk þingsins vera gríðarlega mikilvægt og í rauninni er það mikilvægasta stofnun okkar stjórnskipunar og samfélags. En með þeim tillögum sem hér er ætlunin að fara eftir og gefum okkur að þær verði að veruleika, þ.e. bæði að þjóðaratkvæðagreiðslur verði tíðari og að forseti fái aukin völd, þá erum við í rauninni að takmarka völd þingsins. Á þeim grunni hef ég lagt fram spurningu (Forseti hringir.) um hvort það ætti ekki að fækka þingmönnum úr 63 í 51. Mér þætti gott að fá afstöðu hv. þingmanns (Forseti hringir.) til þeirrar spurningar.