140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar, sérstaklega að varpað skuli ljósi á þær samningaviðræður sem standa yfir milli þingmanna Hreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. Það má fullyrða úr þessum ræðustóli að í þeim samningaviðræðum birtist mikil hræsni og hræsnin í öllu málinu afhjúpast líka. Hv. þingmenn Hreyfingarinnar hafa nefnilega verið talsmenn þess að senda þær tillögur sem koma frá stjórnlagaráði beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki verið að gera það með þeim tillögum sem hér liggja fyrir, vegna þess að kjósa á um hvort leggja eigi þær tillögur fram sem grunn að stjórnarskrá, heldur koma fimm spurningar á eftir sem endurspegla stefnu ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar. Tvær fyrstu spurningarnar eru frá Vinstri grænum, næstu tvær frá Samfylkingunni og síðasta spurningin er frá þingmönnum Hreyfingarinnar. Það er alveg augljóst hvernig þetta liggur fyrir.

Það er einnig athugunarvert að fara eigi í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem kemur til með að kosta á bilinu 250–300 milljónir í október og ekkert vitað hver kosningaþátttakan verður, þetta er jú ráðgefandi. Það má segja að hálfpartinn sé verið að gabba fólk á kjörstað til að kjósa um þessar tillögur vegna þess að ríkisstjórnin er algjörlega óbundin af því að fara eftir niðurstöðunni.

Þetta kemur á sama stað niður og það sem ég spurði hv. þingmann um áðan, hvort þetta væri ekki hreinn blekkingaleikur til að halda þessari vesölu hv. ríkisstjórn saman til þess eins að hún geti setið aðeins lengur á kjörtímabilinu. Þessi samningur við Hreyfinguna endurspeglar það.