140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Við verðum að átta okkur á því að íslenska stjórnarskráin er öðruvísi en norska stjórnarskráin. Í norsku stjórnarskránni er ákveðin heimild til aukins fullveldisframsals umfram það sem hér er.

Ef við skoðum söguna sjáum við að strax í upphafi var varað við því að með EES-samningnum værum við hugsanlega að ganga á skjön við stjórnarskrána. Fræðimenn, sérfræðingar sem við leituðum til, sögðu að svo væri ekki, það væri á mörkunum og voru með ákveðna fyrirvara. Síðan hefur ræst úr þeim fyrirvörum, þannig að við sjáum það í ljósi samningsins, þróunarsamningsins, að við stöndum frammi fyrir því að við verðum annaðhvort að fara í það sem hv. þingmaður talar um, að semja upp á nýtt við ESB um nýjan EES-samning, eða einfaldlega segja okkur frá EES-samninguum eða þá, sem ég tel skynsamlegast, algjörlega óháð ESB, að tala um framsalsákvæðið í stjórnarskránni en ég tel að það ákvæði sé þarft.

Við sem sitjum í EFTA-nefndinni höfum farið mjög yfir þessa þætti með norsku þingmönnunum sem eru í þeirri nefnd sem og þeim frá Liechtenstein ásamt Evrópusambandinu og það er alveg ljóst að þeir segja að ef taka á upp þennan samning verður hann alveg tekinn upp. Ég veit ekki hvort það yrði til hagsbóta fyrir Ísland ef það væri gert. Það er ljóst að margir innan ESB eru á því að við höfum fengið þarna gríðarlega góðan samning gegn endurgreiðslu sem er allt of lítil að þeirra mati. Ég er ekki sammála því, ég held að þessi samningur hafi verið góður bæði fyrir ESB en ekki síður fyrir þá aðila, löndin þrjú, þar á meðal okkur, sem eru aðilar að samningnum.

Við þurfum hins vegar að huga að því hvernig við gætum áfram okkar hagsmuna. Ég er að reyna að undirbyggja umræðuna um það hvernig (Forseti hringir.) við sjáum framtíðina með EES-samningnum, með Ísland og EES-samninginn samhliða. Ég er ekki með þessu (Forseti hringir.) að ræða ESB í þessu samhengi.