140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki heldur að ræða ESB í þessu samhengi heldur eingöngu EES-samninginn og þessa skýrslu.

Ég og hv. þingmaður erum sammála um framtaksleysi sitjandi ríkisstjórnar en ég held að við séum ósammála hvað þennan þátt snertir. Ég tel ekki skynsamlegt að heimila frekara fullveldisafsal í stjórnarskrá Íslands en orðið er með EES-samningnum. Í rauninni heyrir maður það og finnur, ef maður fylgist með norskum fjölmiðlum, að andstaðan við þetta fullveldisafsal í Noregi er að vaxa ár frá ári og ég held að það væri mjög skynsamlegt að leita einhvers konar leiða við það að endurskoða EES-samninginn, reyna að draga úr fullveldisafsalinu, því að sé það gert munu þessi ríki gera þetta saman.

Þá skulum við átta okkur á því að Norðmenn hafa miklu sterkari stöðu en Íslendingar í þessu efni. Einhvers staðar sá ég tölur um að yfir 20% af orkuforða Evrópuríkjanna kæmu frá Noregi. Það er auðvitað svo að þegar Noregur talar er frekar hlustað en þegar Ísland eða Liechtenstein gerir það.

Þrátt fyrir að ég og hv. þingmaður séum sammála um margt hygg ég að við séum ekki sammála hvað þennan þátt snertir. Ég tel ekki skynsamlegt að setja frekara fullveldisafsal inn í stjórnarskrána, ég held að við eigum fremur að leita leiða til að skoða hvernig við getum brugðist við til að draga úr fullveldisafsali. Ég held að ákallið um það gæti verið jafnstórt hér á landi og það er í Noregi, (Forseti hringir.) eins og það birtist í framhaldi af skýrslunni sem þar var birt nýlega og hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni.