140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans um þetta mál. Hann fór yfir völd og áhrif forsetans í stjórnarskránni og að breyttu tillögum. Það eru ekki allir sammála um hvort verið sé að auka völd forsetans eða minnka samkvæmt þessum stjórnarskrárdrögum sem stjórnlagaráð skrifaði. En það er önnur saga.

Nú berast okkur þingmönnum margar fjölpóstssendingar þar sem við erum hvött til að koma þessu máli til þjóðarinnar. Hvert er álit þingmannsins á því miðað við þessa fyrirliggjandi tillögu? Er verið að leggja til að landsmenn fái að kjósa um nýja stjórnarskrá eða þau drög sem stjórnlagaráð samdi? Að mínu mati er það ekki svo vegna þess að hér er búið að setja fram spurningar sem eru teknar upp úr stefnuskrám Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar. Eina spurningin sem raunverulega snýr að drögum frá stjórnlagaráði er sú fyrsta. Spurt er hvort landsmenn vilji að þær tillögur verði notaðar til hliðsjónar við breytingu á stjórnarskránni.

Það á sér stað mikil blekking í þessu máli og það er ekki verið að leggja það til að tillögur stjórnlagaráðs fari til þjóðaratkvæðis. Þeim hefur verið fundið margt til foráttu. Fræðimenn á sviði lögfræði hafa talið málið ótækt í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að það eru svo miklir árekstrar, m.a. við alþjóðasamninga og önnur lög. Er ekki rétt að þetta mál verði lagt til hliðar og þingið taki það til sín því að það erum við þingmenn sem höfum vald samkvæmt núverandi stjórnarskrá til að breyta stjórnarskránni og enginn annar.