140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Kostnaður við málið er náttúrlega sérkapítuli. Það hefði verið miklu skynsamlegra að fá eitthvert fyrirtæki til að sjá um skoðanakönnun meðal þjóðarinnar af tveimur ástæðum. Þegar þjóðin fer í þjóðaratkvæðagreiðslu telur hún sig vera að greiða atkvæði um eitthvað, að hún fái að ráða einhverju. (ÞKG: Nákvæmlega.) Hún gerir það hins vegar greinilega ekki. Það er verið að gefa þjóðinni langt nef með þessu en ef við færum í skoðanakönnun sem er miklu ódýrara og um leið miklu betra, því að það er hægt að spyrja fleiri spurninga og hægt að spyrja miklu markvissara, mundi enginn sem tæki þátt í þeirri skoðanakönnun telja að þetta væri eitthvað sem hann hefði áhrif á heldur væri bara verið að fá upplýsingar um skoðun hans á vissum hlutum í þessum drögum og menn yrðu ekki fyrir jafnmiklum vonbrigðum og menn munu verða núna.

Hreyfingin hefur látið mörg orð falla um samstarfsmenn sína á þingi. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að nota sambærileg orð um hana. En ef þau senda svona mál með samningi við ríkisstjórnina í þjóðaratkvæðagreiðslu og skemma málið þar með er ábyrgð þeirra mikil. Þá kynni að vera að það væri rétt að nota orð hv. þm. Þórs Saaris og segja að þau ættu að segja af sér eins og hann hefur sagt um aðra félaga sína á þingi. Mér finnst mikill ábyrgðarhlutur að senda málið órætt til þjóðarinnar. Það er ekki efnislega rætt og þingmenn hafa ekki einu sinni myndað sér skoðun á því, við höfum ekki fengið kosti og galla margra atriða í þessum drögum. Það á að senda þetta til þjóðarinnar og fá til baka eitthvað sem menn ætla ekkert að fara eftir. (VigH: Einmitt.)