140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:18]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna sem mér fannst að mörgu leyti ágæt, en ég varð hugsi yfir mörgu sem þingmaðurinn sagði. Eitt af því sem ég hjó eftir var að hann sagði að það væri sorglegt að engin efnisleg umræða hefði farið fram um málið á vettvangi Alþingis. Þá vildi ég koma hingað upp til að leiðrétta það vegna þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nánast ekki gert neitt annað í allan vetur en að fjalla um þetta mál. Henni hafa borist um 300 umsagnir, þar af voru um 70 efnislegar. Við höfum kallað til okkar alla helstu sérfræðinga í þessum málum, á hverju sviði fyrir sig, og mér þykir afar leitt að heyra ef boð um það og þessa vinnu alla saman hafa ekki borist þingflokki Framsóknarflokksins.

Ég heyrði áhyggjur þingmannsins, ef ég hef skilið ræðu hans rétt, af því að landið yrði gert að einu kjördæmi með persónukjöri. Ég get ekki séð að slík tillaga felist í tillögum stjórnlagaráðs og mundi hafa áhyggjur af því líka ef svo væri, en svo er ekki.