140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hvað varðar efnislega umræðu um þetta mál er auðvitað mjög sérkennilegt að áður en búið er að ræða málið í heild sinni jafnlengi og hæstv. forsætisráðherra hélt eina ræðu byrjar hún að garga: Málþóf. Það skýrir dálítið það sem við erum að ræða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann sat …

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmann að nota hefðbundin ávarpsorð og gæta orða sinna í ræðustól á Alþingi.)

Ég mun gera það, virðulegi forseti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann — þar sem hann sat í nefndinni þegar ákveðið var að halda áfram eftir að kosningarnar voru dæmdar ógildar og stjórnlagaþingi breytt í stjórnlagaráð, án þess að ég ætli að vera með einhverjar fabúleringar um það — út í það þegar tillögur stjórnlagaráðs komu til þingsins: Hver er skoðun hans á því nú þegar búið er að fara í þessa vinnu á vegum stjórnlagaráðs, búið að halda þjóðfundinn? Var það í raun ekki nægjanlegt veganesti fyrir þingið að halda áfram með vinnuna á þeim grunni?

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög óljóst hvað varðar þessa skoðanakönnun, sem á að fara fram, hvert hún færir okkur í meðferð málsins. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki væri eðlilegra að þingið tæki tillögur stjórnlagaráðs, færi yfir þær og byggði á þeim þær tillögur sem þingið ætti að samþykkja og legði þær síðan fyrir þjóðina. Þetta milliskref, að fara í skoðanakönnun sem er munaðarlaus að því er mér finnst — hefði ekki verið nægilegt að hafa skýrslu stjórnlagaráðs og fara þá beint í vinnuna á vegum þingsins í stað þess að fara í svona skoðanakönnun (Forseti hringir.) sem mér finnst ekki skipta neinu máli?