140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar er mergurinn málsins. Ég held að stjórnlagaráð hafi skilað af sér mjög góðu verki. Efnislega er ég hins vegar ósammála þeim um ýmsa þætti, ég er jafnvel þeirrar skoðunar á því sem þingmaðurinn nefndi að það sé einmitt dæmi um að vinna hefði þurft hlutina aðeins betur. Ég held að stjórnlagaráðsmenn viðurkenni almennt að þeir hefðu alveg vilja hafa nægan tíma, en þetta kostaði peninga og það verður að horfa í það líka.

Ég held að það sem okkur vanti svo nauðsynlega á Alþingi Íslendinga sé umræða um efnisþætti máls. Mér finnst málið reyndar hafa þokast áfram í fjárlaganefnd þar sem ég sit með hv. þingmanni. Ég held að við séum á réttri leið með margt. Ég heyri hins vegar að margir vilja halda uppi umræðu um að hér sá málþóf eða að þingmenn séu svona og hinsegin sem skiptir að mínu mati engu máli. Mín upplifun af þessum vinnustað er að hér sé vandað, velmeinandi fólk sem ég er reyndar ósammála oft og tíðum því að það hefur jafnvel aðra sýn á lífið en ég, en ég virði það. Ég verð að nýta mér þann rétt að koma upp og andmæla því þegar ég er ósammála og ýta á nei-takkann þegar ég tel að mál séu frekar til ógagns en gagns.