140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka málshefjanda, hv. þm. Illuga Gunnarssyni, fyrir að efna til umræðu um þetta brýna og mikilvæga mál. Ég er í sjálfu sér sammála í grófum dráttum því mati sem fram kom í máli hv. þingmanns, en vil leggja sérstaka áherslu á það að hvaða leið sem menn sjá fyrir sér við lausn á gjaldeyrishöftum, hvort sem er upptaka erlendrar myntar einhliða, tvíhliða eða með því að fjármagna Evrópska seðlabankann að hluta, munum við í öllum tilvikum þurfa að auka fjárfestingu í landinu verulega frá því sem nú er. Vandinn liggur í því að ekki hefur verið næg fjárfesting í landinu til að koma því fjármagni sem hér er ofaukið, ef svo má segja, í vinnu. Fjárfesting hefur raunar verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár.

Það er engin lausn á þessu máli að ganga í Evrópusambandið. Það er raunar furðulegt að heyra slíkan málflutning akkúrat þessa dagana, á meðan til að mynda Grikkland er í raun orðið gjaldþrota vegna þátttöku sinnar í evrusamstarfinu. Jafnvel þó að við gengjum í Evrópusambandið og tækjum upp evru væri það auk þess ekki sama evra og í Þýskalandi, menn gleyma því nefnilega, íslensk evra væri ekki sama og þýsk evra. Eftir stæði það vandamál að fólk mundi ekki vilja eiga evrurnar sínar í íslenskum bönkum nema á Íslandi væru raunveruleg fjárfestingartækifæri.

Hverju stæðum við þá frammi fyrir? Þá stæðum við frammi fyrir því að íslensku evrurnar mundu streyma til Belgíu, Þýskalands og annarra Evrópulanda til eigenda fjármagnsins og Seðlabankinn og ríkið þar með þyrfti að taka sífellt hærri upphæðir að láni hjá Evrópska seðlabankanum í mynt sem við getum ekki prentað. Með öðrum orðum, Evrópusambandsleiðin út úr gjaldeyrishöftunum er gjaldþrota leið fyrir Ísland.