140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við verðum að ná saman um raunhæfa leið til að afnema gjaldeyrishöftin. Fjárfestingarleið Seðlabankans er allt of hægvirk en hún felst í tilboði til eigenda erlends gjaldeyris að kaupa krónur á 30% afslætti. Slíkur afsláttur skekkir samkeppnisstöðu fjárfesta, ekki síst þeirra sem hafa tekið stöðu með íslensku efnahagslífi.

Ef tillaga mín um skattútstreymi fjármagns hefði verið innleidd rynni stór hluti afsláttarins í ríkissjóð en ekki til einkaaðila og til lífeyrissjóðanna. Skatturinn hefði aflað ríkinu tekna til að fjármagna hallarekstur og við hefðum getað minnkað snjóhengjuna strax. Nú hefur komið í ljós að eigendur snjóhengjunnar vilja hvorki fara út með miklum afföllum né binda fé sitt innan lands til langs tíma. Ástæðan er stefna ríkisstjórnarinnar um að taka upp evru sem verður á einu gengi fyrir alla og væntanlega gengi sem er hærra en aflandskrónugengið. Síðan er ætlunin að taka lán fyrir þessu 1.000 milljarða útstreymi, og þetta vita eigendur snjóhengjunnar, frú forseti.

Vaxtahækkunarferli Seðlabankans er hafið og markmið þess er að hemja verðbólgu af völdum gengislækkunar sem stafar ekki síst af afborgunum af miklum erlendum skuldum. Þessar vaxtahækkanir munu stækka snjóhengjuna. Frú forseti, það verður að sýna eigendum aflandskróna og eigna sem tilheyrðu þrotabúum gömlu bankanna hörku. Við eigum að hóta þeim upptöku nýrrar krónu með 80% afföllum ef þeir fjárfesta ekki strax til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða sætta sig við mikil afföll, allt að 80% afföll á gjaldeyrismarkaði.