140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[16:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar áðan mátti heyra mjög augljóslega á hvers konar villigötum umræðan um lausn á gjaldeyrishöftunum eða inngöngu í Evrópusambandið er. Hv. þingmaður virtist telja að ef við gengjum í Evrópusambandið fengju Íslendingar evrur fyrir allar eignir sem hér eru en gleymdi algjörlega að skuldirnar breytast líka í evrur. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom aðeins inn á það. Vandinn liggur í skuldunum. Ef skuldavandinn er ekki leystur og menn breyta hér öllu í evrur, bæði eignum og skuldum, og skuldirnar streyma úr landi, eignirnar streyma úr landi, þýðir það einfaldlega að við lendum í sömu stöðu og Grikkland er í núna þar sem er áhlaup á bankana á hverjum einasta degi. Evrópski seðlabankinn þarf að dæla evrum þar inn, en er reyndar nú búinn að setja fjóra gríska banka í straff, þeir fá ekki meira úr Evrópska seðlabankanum, þeir greina að sjálfsögðu ekki frá því hvaða bankar það eru enda væru þeir bankar þá hugsanlega búnir að vera. Þessir bankar þurfa að leita á náðir Evrópska björgunarsjóðsins svokallaða, sjóðs sem Íslendingar þyrftu vel að merkja líka að dæla fjármagni inn í ef við gengjum í Evrópusambandið. Hlutur Íslands miðað við það sem stefnir í vegna björgunaraðgerðanna svokölluðu á evrusvæðinu vegna evrukrísunnar næmi hundruðum milljarða króna. Við værum með þessu að setja okkur í sömu stöðu og Grikkland og auk þess að borga fyrir vandræðin í öðrum Evrópulöndum. Það er ekki lausn, frú forseti. Við þurfum lausn sem tekur mið af íslenskum aðstæðum og gerir vandann ekki algjörlega óbærilegan eins og hann er því miður orðinn í Grikklandi og líklega fleiri Evrópuríkjum núna.

Ef hv. málshefjandi Illugi Gunnarsson hefur tíma til að svara í lokaræðu sinni væri fróðlegt að heyra mat hv. þingmanns á því hvernig menn sáu fyrir sér að gjaldeyrishöftin yrðu afnumin þegar þau voru sett á, (Forseti hringir.) hvort sú leið er farin út um þúfur og hvers vegna.