140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[16:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna. Það er ánægjulegt að finna mikinn vilja til þess að takast sameiginlega á við þetta verkefni. Það er stórt, það er vandasamt og afar afdrifaríkt fyrir okkur að það takist án þess að við glötum fyrir borð þeim stöðugleika sem þó hefur tekist að ná í hagkerfinu og hefur kostað sínar fórnir. Það kemur ekki til greina að fara í glannaskap í þessum efnum sem yrði á kostnað almennings í landinu eða ríkissjóðs.

Það er rétt að minna á að hrein staða þjóðarbúsins, sem glittir í þegar rykið er að setjast eftir fall bankanna og með uppgjöri á þeim, er ekki svo slæm, 60%, að talið er, í lok árs 2010. Hún hefur farið batnandi síðan meðal annars vegna þess að innlendir aðilar greiða erlendar skuldir sínar tiltölulega hratt niður.

Það færir okkur líka heim sönnur um að það má ræða þetta mál, hvort sem heldur er sem greiðslujöfnunarvanda eða skuldavanda. Auðvitað er þetta sambland af hvoru tveggja. Viðfangsefnið er það að við ráðum ekki við eða höfum ekki stöðu til þess að láta þessar skuldir greiðast of hratt niður eða hverfa of hratt út úr hagkerfinu, sérstaklega ekki á meðan innflæði er takmarkað. Á meðan innlendir aðilar greiða erlend lán sín niður á sama tíma mundi það verða meira en greiðslujöfnuðurinn réði við.

Það er mikilvægt að um þetta sé höfð eins mikil þverpólitísk sátt eða samstarf og mögulegt er. Þess vegna er nú að störfum nefnd fulltrúa allra þingflokka sem er að greina þetta mál, stýrihópur ráðherra og Seðlabanka og Fjármálaeftirlits er sömuleiðis virkur og er að fara yfir stöðuna núna í ljósi reynslunnar af þeim þremur gjaldeyrisútboðum sem búin eru á árinu. Það fjórða er fram undan í byrjun júní. Það hefur allan tímann legið fyrir að nú yrði staðan metin meðal annars í ljósi þeirra upplýsinga sem koma frá markaðnum í gegnum þessi útboð. Ákvarðanir um framhaldið og næstu skref þurfa að koma fram; er það útgönguskattur eða er það að einhverju leyti skuldabréfabinding eins og hér hefur borið á góma? Engu hefur verið hafnað í þeim efnum.