140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Nú hellast yfir þingmenn tölvupóstar þar sem fram kemur sú skoðun að með þeirri umræðu sem hér stendur sé verið að lengja í því að Íslendingar fái kosið um nýja stjórnarskrá. Af því tilefni vil ég árétta að það mál sem hér liggur fyrir snýst ekki um það hvort þjóðin geti kosið um nýja stjórnarskrá, samþykkt hana eða synjað. Það mál sem hér liggur fyrir er þingsályktunartillaga sem heimilar þingi og þá væntanlega ríkisstjórn að fengnu samþykki þessarar þingsályktunartillögu að leggja sex spurningar fyrir almenning á Íslandi. Þær eru vissulega tengdar ýmsu sem snýr að stjórnarskrá lýðveldisins en ekki er með neinum hætti hægt að leggja það út að þetta mál eins og það liggur hér fyrir, ef og þegar það fer í atkvæðagreiðslu, sé þess eðlis að þjóðin væri að segja skoðun sína á nýrri stjórnarskrá eins og sagt er. Það er langur vegur frá. Því miður hefur þingið ekki notið þeirrar gæfu að vinna úr þeim miklu gögnum sem fyrir liggja um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þess í stað er málið sífellt sett í þann hnút sem raun ber vitni og við upplifum þessa dagana.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll sem hér eigum sæti hvers vegna ekki hefur tekist að vinna úr öllum þeim gagnabunka sem fyrir liggur í stjórnarskrármálinu. Í því efni má nefna afrakstur vinnu stjórnarskrárnefnda fyrri ára, sérstaklega á árinu 2005 til ársins 2007. Það má líka nefna afrakstur þjóðfundarins frá árinu 2010 sem gekk mjög vel og skilaði mörgum hugmyndum. Stjórnlaganefndin starfaði frá 2010 til 2011 og stjórnlagaráðið á árinu 2011 eins og allir þekkja. Afrakstur þeirrar vinnu var afhentur forseta Alþingis 29. júlí á síðasta ári. Það er að verða hartnær eitt ár frá því að sú gjörð var staðfest. Engu að síður liggur fyrir að þingið vann ekkert í því gagni sem forsenda var afhent fyrr en eftir langa mæðu og niðurstaða þeirrar vinnu er sú að Alþingi hefur ekki tekið neina efnislega umræðu um breytingar á þeirri stjórnarskrá sem fyrir er í landinu og ekki heldur tillögu að nýrri stjórnarskrá sem við getum kallað sem svo sem kom út úr stjórnlagaráðsvinnunni. Nei, það sem kemur þá út úr þessari „vinnu Alþingis“ eftir eitt ár eru sex almennar spurningar sem senda á til þjóðaratkvæðis og hvernig svo sem svörin við þeim verða er alveg ljóst að óhjákvæmilegt er fyrir þingið að taka grundvallarumræðu um efnislega þætti málsins sem hingað til hefur ekki fengist. Í mínum huga er eingöngu um að ræða frestun á því lögbundna hlutverki sem Alþingi hefur og felst í þessari þingsályktunartillögu, þetta er tillaga um að fresta því að alþingismenn sem kjörnir voru til setu á árinu 2009 takist á við hlutverk sitt og rýni þær tillögur sem Alþingi hafa borist. Það verður væntanlega ekki fyrr en seint og um síðir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um þessar sex spurningar á ekki að fara fram fyrr en í haust, í október, og þá fyrst á að taka hina efnislegu umræðu og gefa sér þá veturinn til að komast að einhverri niðurstöðu.

Mér er algjörlega hulin ráðgáta hvers vegna þessi vinna hefur ekki farið fram nú þegar. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta þingmann úr stjórnarliðinu eða meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggja fram rök fyrir því hvers vegna ekki hafi verið tekist á við þessar spurningar.

Ég álít einnig að það ættu að vera allar forsendur til þess að þingið gæti tekist á við þetta verkefni, ekki síst í ljósi yfirlýsinga frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi í dag í þá veru að þeir hafa lýst sig reiðubúna að koma að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er út af fyrir sig mjög gott að hafa fyrirliggjandi þá vitneskju að ríkur vilji sé meðal allra stjórnmálaflokka að ganga til þessa verks og það rekur mig enn og aftur að þeirri spurningu hvað skortir á skilyrði til að þannig sé unnið. Þess í stað erum við hér í sífelldum átökum og að takast á um það annað slagið í heift hvers vegna þetta verklag sé viðhaft og síðan að skiptast á spurningum sem lúta að einstökum atriðum stjórnarskrárinnar. Fremur ættum við að vera með málið í vinnslu þingmanna sem skiluðu okkur síðan tillögu inn til Alþingis að nýrri stjórnarskrá sem væri þá hægt að senda út til atkvæða eins og lög gera ráð fyrir.

Tilfinning mín er sú að þetta sé liður í einhvers konar pólitískum leik, því miður, og við sjáum þess raunar stað í því með hvaða hætti forustumenn ríkisstjórnar svara úr ræðustóli eða í fjölmiðlum um þær þreifingar sem eiga sér stað milli ríkisstjórnarinnar og þingflokks Hreyfingarinnar. Eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi í fyrirspurnatíma í morgun standa yfir samningar í þessa veru þannig að verið er að semja um meðal annars meðferð stjórnarskrárinnar utan Alþingissalarins og er ekki góður bragur á slíku.

Það eru mörg álitamál í þessum efnum. Sérstaklega vil ég nefna eitt, ekki síst í ljósi þess hvernig þessu máli var stefnt á sínum tíma, að þjóðaratkvæði og sú skoðanakönnun sem gera á með þessum sex spurningum átti að vera gerð jafnhliða forsetakosningum. Sem betur fer verður sú könnun ekki gerð jafnhliða þeim. Það væri æskilegt að þingið ræddi það sérstaklega í tengslum við endurskoðun stjórnarskrár hvernig ætti að fara með hið svokallaða synjunarvald forseta. Við sjáum þess stað, a.m.k. hjá tveimur frambjóðendum til forseta, þar sem annar frambjóðandinn lýsti því yfir að ef naumur meiri hluti væri fyrir máli á Alþingi í umdeildu máli vildi sá frambjóðandi vísa því máli til atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar og frá öðrum frambjóðanda höfum við fengið tilkynningu um að ef hann hlyti kosningu yrði væntanlega mjög umdeildu máli sem er í meðferð hjá Alþingi nú þegar, fiskveiðistjórnarfrumvarpinu, vísað til þjóðarinnar. Menn eru þegar í framboði til forseta farnir að gefa yfirlýsingar um það hvernig og við hvaða mál á að beita þessu synjunarvaldi. Ég hefði talið æskilegra að þingið lyki afgreiðslu sinni og vinnu áður en til slíkra tilkynninga kæmi en þó teldi ég æskilegra að synjunarvald sem slíkt væri ekki hjá einum einstaklingi heldur væru reglur í stjórnarskrá sem mæltu fyrir um það hvaða mál ættu að fara til þjóðaratkvæðis, undir hvaða skilmálum, hversu margir Íslendingar gætu óskað eftir því að fá til þjóðarinnar mál eða að einhver tiltekinn hluti alþingismanna gæti borið það upp.

Þessi mikilsverðu efni hafa ekki fengist rædd í tengslum við þetta mál og þegar maður rýnir þær spurningar sem hér liggja fyrir er alveg með ólíkindum að sjá hvernig þær eru orðaðar, sumar hverjar. Það er nánast útilokað fyrir þann sem mun lenda í því og vill taka þátt í þeirri atkvæðagreiðslu ef hún fer fram að átta sig á því hvað svar hans við tiltekinni spurningu þýðir. Þannig væri hægt að tína út nokkrar spurningar og fara yfir. Tími minn til umræðu um það er ekki mikill þannig að ég geri ráð fyrir að taka það fyrir í annarri ræðu en læt þessu lokið að þessu sinni.