140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Eftir því sem við ræðum þetta mál meira á þinginu afhjúpast enn frekar sá fáránleiki að ætla að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu ekki síðar en í október. Það vill þannig til, eins og ég hef sagt áður í ræðu, að búið er að skipa sex til sjö manna lögfræðingateymi til að lesa yfir tillögur stjórnlagaráðs. Teymið á að vinna í sumar og skila tillögum til þingsins eigi síðar en í byrjun september. Samt er haldið áfram með þetta mál, að leggja fram þessar spurningar í skoðanakönnun hjá þjóðinni, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessar tillögur eru nú þegar úreltar vegna þess að lögfræðingateymið sem á að vinna í sumar kemur til með að gera breytingar á því plaggi sem nú er lagt til grundvallar.

Í ljósi þessa er mjög einkennilegt að fyrsta spurningin skuli standa eins og hún gerir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Þessu er ekki hægt að svara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að tillögurnar koma til með að taka breytingum í sumar. Þess vegna vil ég spyrja þingmanninn: Er þetta ekki tímaeyðsla? Er ekki verið að henda 250–300 millj. kr. út um gluggann algerlega að ástæðulausu? Væri ekki nær að nota peningana í eitthvað annað en þá leiksýningu sem málið er?