140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég get svarað því játandi að ég hafði rekið augun í þetta, ég rýndi það eftir að þetta kom upp í umræðu um málið. Allir fá sinn hluta af kökunni í þessu máli og það birtist meðal annars svona.

Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður bendir á að æskilegra væri að núverandi stjórnvöld fylgdu ákvæðum stjórnarskrárinnar sem er þó enn í gildi. Frægasta dæmið um það hvernig skautað var fram hjá þeim, var í upphafi starfstíma þessara ágætu einstaklinga þegar ráðinn var seðlabankastjóri sem var norskur ríkisborgari. Það stenst ekki ákvæði íslenskrar stjórnarskrár að erlendur ríkisborgari sé ráðinn til þess starfs. Það er eitt dæmi af mörgum um það að ákvæði stjórnarskrárinnar sem í gildi eru hafi verið brotin af núverandi stjórn.