140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar að fara aðeins yfir og spyrja hv. þingmann um eitt mál sem ég spurði félaga hans að, hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, í umræðunum fyrr í morgun. Það snýr að því að töluverð umræða hefur verið um að stjórnarskrá Íslands heimili ekki það fullveldisafsal sem felst í EES-samningnum. Nýlega fór fram úttekt á þessum málum í Noregi, þ.e. EES-samningnum og stöðu Noregs í því sambandi. Staðan í Noregi og á Íslandi er um margt mjög svipuð. Gríðarleg andstaða er við Evrópusambandsaðild í báðum löndunum og miklar vangaveltur um fullveldi samhliða stjórnarskrá.

Í skýrslunni var rætt um þrjá möguleika fyrir Noreg. Það var í fyrsta lagi að ganga í Evrópusambandið, í öðru lagi að segja skilið við EES-samninginn eða í þriðja lagi að leita eftir því að endurskoða EES-samninginn með einhverjum hætti og draga úr fullveldisafsali.

Nú hefur reyndar komið fram í þinginu breytingartillaga sem snýr að þessu fullveldisafsali, hvort þjóðin vilji heimila fullveldisafsal í stjórnarskrá. Mig langaði að inna hv. þingmann eftir skoðun hans í því máli. Telur hv. þingmaður að við ættum að gera breytingar á stjórnarskrá sem heimili slíkt fullveldisafsal eða ættum við að styrkja fullveldisákvæði í stjórnarskrá og halda því eins og það er, og leita leiða til að endurskoða EES-samninginn? Miklar umræður eru þessa dagana um fullveldi, ekki eingöngu í tengslum við ESB-umsóknina heldur almennt í samfélaginu. Það væri fróðlegt að fá sýn hv. þingmanns á þetta.