140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu frá ríkisstjórninni og þingmönnum Hreyfingarinnar um að af stað fari þjóðaratkvæðagreiðsla um sex spurningar sem fyrir fram eru gefnar. Mig langar í byrjun að upplýsa að einhver misskilningur virðist vera í gangi í samfélaginu vegna þess að þingmönnum berast tölvupóstar og SMS þar sem þess er óskað að þjóðin fái að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Það er ekki það sem er í bígerð núna hjá ríkisstjórninni vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki með skýrslu stjórnlagaráðs óbreytta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar liggur hundurinn grafinn, frú forseti, þannig að þær spurningar sem stendur til að setja í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eru á engan hátt tengdar þessu máli frá stjórnlagaráði.

Ég hef líka farið yfir það í dag að spurning eitt í tillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, um hvort tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá, er raunverulega orðin úrelt vegna þess að nú hefur verið fenginn lögfræðihópur til að lesa þetta allt saman yfir. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur viðurkennt að til dæmis verði þessum hópi falið að endurskrifa greinargerðina sem stjórnlagaráð skilaði af sér. Það er því verið að breyta málinu í þessum töluðu orðum og þar með verður þjóðaratkvæðagreiðslan úrelt og er nú þegar orðin úrelt vegna þess að búið er að koma saman þessu lögfræðingateymi.

Ég fór yfir í andsvari áðan, og lítill tími til að fylgja því eftir, þá blekkingu sem búið er að koma inn í breytingartillögu um þjóðaratkvæðagreiðsluna því að hér eru ríkisstjórnarflokkarnir ásamt Hreyfingunni sem er að vísu ráðherralaus, þau standa saman að þessu, búin að koma kosningastefnumálum sínum inn sem snerta stjórnarskrána raunverulega ekki neitt. Vinstri grænir eiga punkt tvö og þrjú sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Þetta eru stefnumál Vinstri grænna.

Fjórði og fimmti punktur koma frá Samfylkingunni þar sem verið er að spyrja hvort í nýrri stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um persónukjör og í punkti fimm hvort atkvæði landsmanna eigi að vega jafnt. Þetta eru baráttumál Samfylkingarinnar í undanliðnum kosningum, þetta er því mjög kunnuglegt. Og svo hefur Hreyfingin greinilega fengið að setja inn síðasta punktinn, sjötta punkt, þar sem spurt er hvort tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er allt og sumt. Svo er verið að halda því fram að verið sé að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána. Þetta er svo mikill blekkingaleikur og þetta er svo mikill tafaleikur vegna þess að að sjálfsögðu eru það þingmenn samkvæmt núgildandi stjórnarskrá sem eiga að breyta stjórnarskránni. En ferlið er búið að kosta skattgreiðendur um 1.000 millj. kr. hingað til og svo er með þessari tillögu verið að leggja til að bæta við 250–300 millj. kr. með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er raunverulega ekkert sem heldur í þessu máli.

Mig langar aðeins til að fara yfir hvernig stjórnarskrá er breytt. Í 79. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Hér er alveg kveðið skýrt á um það í stjórnarskránni sjálfri hvernig breyta á stjórnarskrá. Við skulum hafa það hugfast að einungis þingmenn geta lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur á Alþingi og þá verða þingmenn að sjálfsögðu að leggja fram frumvarp til breytingar á stjórnarskipunarlögum sem felur í sér breytingar á stjórnarskrá. Þess vegna er það óskiljanlegt í hvaða rugl þessi mál eru komin og alveg óskiljanlegt hvað ríkisstjórnin leggur mikið á sig að koma þessu út úr þinginu vegna þess að það er einfaldlega ekki heimilt samkvæmt stjórnarskrá Íslands, frú forseti.

Minnisblað barst til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 26. mars 2012 frá Björgu Thorarensen, en hún er með okkar fremstu stjórnskipunarfræðingum hér á landi, þar sem hún fer yfir það hvernig stjórnarskipunarlögunum var breytt við lýðveldisstofnunina 1944. Mig langar til að grípa ofan í þetta minnisblað vegna þess að það er skýrt hvernig þetta ferli var. Og þá vitna ég í minnisblaðið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktaði 17. maí 1941 að lýðveldi yrði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Dani yrði formlega slitið og vann síðan áfram að undirbúningi nýrrar stjórnarskrár. Í maí 1942 samþykkti Alþingi ályktun um það að kjósa milliþinganefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnarskipunarlögum ríkisins.

Þann 15. desember sama ár voru samþykkt stjórnarskipunarlög, nr. 97/1942. Þau bættu ákvæði við 76. gr. stjórnarskrár konungsríkisins Íslands frá 1920 með heimild til að víkja frá hefðbundnu breytingarferli á henni. Samkvæmt hinu nýja ákvæði skyldi samþykkt eins þings gilda sem stjórnarskipunarlög eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram um nýja stjórnarskrá í stað tveggja þinga eins og stjórnarskráin mælti fyrir um. Þessi stjórnarskrárbreyting, þ.e. stjórnarskipunarlög, nr. 97/1942, fylgdi hefðbundnu ferli, þ.e. var samþykkt af tveimur þingum með almennum kosningum á milli.

Milliþinganefndin vann að verkefni sínu síðari hluta ársins 1942 og fyrri hluta árs 1943 og skilaði frumvarpi að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands vorið 1943. Í stjórnarskrárfrumvarpinu var mælt fyrir um að gildistaka hinnar nýju stjórnarskrár væri háð samþykki þjóðarinnar. Nánar tiltekið var 81. gr. svohljóðandi.

„Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi, þegar Alþingi gerir um það ályktun, enda hafi meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt þau.“

Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var samþykkt á Alþingi 8. mars 1944. Þá voru samþykkt lög nr. 17/1944, um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána, en samkvæmt fyrrgreindri 81. gr. hennar þurfti meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu að samþykkja hana í þjóðaratkvæði til að hún öðlaðist gildi. Með sama hætti þurfti að leggja tillögu um sambandsslit við Danmörku í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 18. gr. dansk-íslensku sambandslaganna. Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram dagana 20. til 23. maí 1944. Voru báðar tillögurnar samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

Lokapunkturinn á því ferli sem markaði upphaf lýðveldis voru ályktanir sem Alþingi gerði 16. júní 1944, önnur um niðurfellingu dansk-íslenska sambandslagasamningsins frá 1918 og hin um gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Vegna fyrrgreindra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni frá 1920 með stjórnarskipunarlögum, nr. 97/1942, nægði samþykkt eins þings og þjóðaratkvæðagreiðslan í maí 1944 til þess að lýðveldisstjórnarskráin tæki gildi. Jafnframt var tryggt að þjóðin sjálf samþykkti stjórnarskrána með endanlegri og bindandi niðurstöðu.“

Það er þetta sem ég er að kalla eftir þegar við erum að tala um að landsmenn fái að greiða atkvæði um stjórnarskrána sína, að fyrir landsmenn verði lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu endanleg stjórnarskrá eins og hún á að líta út en ekki að fara fram með spurningar eins og ég fór yfir áðan sem er meira að segja búið að blanda inn í pólitískum stefnumálum flokkanna sem nú sitja í ríkisstjórn.

Auðvitað á að gera þetta svona og það er það ferli sem ég vil sjá. Í minnisblaðinu kemur einmitt lausn á þeim vandamálum sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir, leið eitt og leið tvö frá Björgu Thorarensen, en svo virðist vera sem ríkisstjórnin ætli ekki að taka mið af þeirri góðu ráðgjöf sem kemur fram í minnisblaðinu. Mig langar til að lesa það upp, frú forseti, hvernig Björg Thorarensen lagaprófessor sér fyrir sér hvernig hægt er að höggva á þennan hnút varðandi breytingar á stjórnarskrá. Leið eitt hljómar svo, með leyfi forseta:

„Fyrir kosningar til Alþingis vorið 2013 verði bætt nýju ákvæði við núgildandi stjórnarskrá með heimild til að víkja frá hefðbundnu breytingarferli 1. mgr. 79. hennar. Þar verði mælt fyrir um að samþykkt eins þings skuli gilda sem stjórnarskipunarlög, eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram um nýja stjórnarskrá. Þessu ákvæði yrði bætt inn eftir hefðbundnu ferli með samþykki tveggja þinga og kosningum á milli. Í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem Alþingi samþykkir í kjölfarið verði síðan ákvæði sem mælir fyrir um að stjórnarskráin taki gildi eftir að hún hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér er eðlilegt að gera kröfu um að meiri hluti kjósenda á kjörskrá samþykki hana, enda hefur aðeins eitt þing samþykkt hana. Þetta er leiðin sem farin var 1942.“

Hin leiðin sem Björg Thorarensen leggur til er þessi, með leyfi forseta:

„Hægt er að samþykkja nýja stjórnarskrá vorið 2013 og fylgja þar hefðbundnu ferli núgildandi 1. mgr. 79. gr., þ.e. að hún verði samþykkt á tveimur þingum með almennum kosningum á milli. Eins og endranær snúast þær kosningar þó ekki um að kjósendur taki beina afstöðu til stjórnarskrárinnar. En til þess að tryggja beina aðkomu kjósenda að setningu hennar og undirstrika þannig stöðu þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa líkt og árið 1944 er hægt að binda gildistöku hennar (eftir samþykkt tveggja þinga) því skilyrði að hún hljóti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Svona er nú einfalt að koma þessu máli í lag en ekki er vilji til þess hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum. Svo virðist vera að búið sé að taka ákvörðun um að leyfa þjóðinni ekki að koma að þessu með bindandi hætti eins og kveður á um í núgildandi stjórnarskrá. Því er þessi ráðgefandi skoðanakönnun komin á dagskrá og virðist vera mjög fast haldið í hana, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra upplýsti um miklar samningaviðræður við hv. þingmenn Hreyfingarinnar í vikunni. Það virðist vera það lím sem heldur ríkisstjórninni núna saman, þ.e. að farið verði af stað með einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu um einhvers konar tillögur sem beinlínis snerta ekki það mál sem við erum að fjalla um, þ.e. að fólk fái að hafa áhrif á það og kjósa um stjórnarskrá, því það verður ekki í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að nú þegar hefur verið farið af stað með breytingarferli að þeirri skýrslu sem stjórnlagaráð hefur lagt fram. Færir lögfræðingar hafa verið beðnir um að taka sæti í því lögfræðingateymi og alveg ljóst að miklar breytingar verða gerðar á skýrslu stjórnlagaráðs vegna þeirrar gagnrýni sem sú skýrsla hefur fengið. Þar inni eru ýmis ákvæði sem beinlínis stríða gegn alþjóðasamningum, stjórnarskránni og öðrum lögum þannig að nú þegar er breytingarferlið hafið að þessari skýrslu. Það er blekking ein, frú forseti, að halda því fram að þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrána þegar þessar tillögur eru skoðaðar.