140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það að þessum tillögum var stungið ofan í skúffu vegna þess að þær pössuðu ekki við áætlun meiri hlutans. Ég tek undir með þingmanninum að það virðist engu skipta hvað reynt er að gera, á hvaða lausnir er bent í málinu. Við þekkjum það úr fleiri málum hjá þessari ríkisstjórn að ekki virðist vera hægt að taka við tillögum, sérstaklega ekki ef þær eru góðar og ekki heldur ef þær virðast fela í sér lausn mála sem fyrir liggja.

Þar sem hv. þingmaður rifjaði upp þetta minnisblað frá Björgu Thorarensen langar mig að vísa í það aftur sem ég las ekki upp í ræðu minni, með leyfi forseta:

„Nú er til umfjöllunar tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tillaga stjórnlagaráðs skuli lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Slík atkvæðagreiðsla sem hefur það markmið að leita leiðsagnar frá kjósendum getur ekki komið í staðinn fyrir að þjóðin taki beina afstöðu til nýrrar stjórnarskrár með bindandi niðurstöðu, með öðrum orðum samþykki hana eða hafni henni, eftir að Alþingi hefur samþykkt hana í endanlegri mynd.

Án tillits til þess hvort ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um tillögur stjórnlagaráðs hlýtur Alþingi við áframhaldandi vinnslu frumvarps til nýrrar stjórnarskrár að búa svo um hnútana að réttur þjóðarinnar sem hins endanlega stjórnarskrárgjafa verði tryggður, líkt og gert var árið 1944.“

Hér gefur Björg Thorarensen, lagaprófessor í stjórnskipunarrétti, þinginu beinlínis leiðsögn um að ekkert sé að marka ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og gefur einnig ráð um það hvernig þjóðin getur komið að endanlegu frumvarpi, endanlegri stjórnarskrá (Forseti hringir.) en ekki pólitískum yfirlýsingum.