140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir þetta ágæta minnisblað sem ég vona nú að hv. þingmenn kynni sér og horfi til sem leiðar frekar en þeirrar tillögu sem liggur fyrir frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um meðferð þessa máls.

Við höfum tillögur stjórnlagaráðs í höndunum og hver sem er á þingi getur lagt það fram sem heild sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá, það þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu til að málið fari í þann farveg. Það hefur reyndar aldrei þurft þann farveg til. Allt frá því að stjórnlagaráðið skilaði af sér á síðasta sumri hefur hverjum þingmanni verið í lófa lagið að leggja slíkt plagg fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem fengi þá eðlilega meðferð í þinginu. Það hefur enginn hindrað menn í því, það hafa allir verið frjálsir að því. Þeir sem telja tillögur stjórnlagaráðs góðar hefðu getað gert þær að sínum tillögum og komið þeim á framfæri með þeim hætti.

Af einhverjum ástæðum var ekki farið í það heldur eru farnar einhverjar krókaleiðir í þessu sambandi og eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni er frekar verð að lengja í málsmeðferðinni og gera hana flóknari og erfiðari. Þeir sem segjast í orði kveðnu vera hrifnastir af tillögum stjórnlagaráðs eru sjálfir bara að seinka því að málið komist inn í þingið. Hver einasti þingmaður, þingmenn Hreyfingarinnar eða hv. þingmenn annarra flokka, hver sem er, hefði getað komið með tillögur stjórnlagaráðs í september, október á síðasta ári og sagt: Ég legg þetta fram sem frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Þingið á og verður að taka afstöðu til þess. Í staðinn fyrir það er verið að fara miklar krókaleiðir í þessu sambandi. Það er nú aðalmálið. Verið er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á kolvitlausum tímapunkti í ferlinu.

En varðandi spurningarnar sjálfar velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, geti upplýst hver viðbrögð meiri hlutans voru við hugmyndum (Forseti hringir.) að öðrum spurningum en komu frá þeim sjálfum.