140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Spurning mín til hv. þingmanns er til komin vegna nafnsins á tillögunni, þetta á að vera þingsályktunartillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skildi orðið ráðgefandi á þann veg að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vildi fá ráð varðandi einhver úrlausnarefni sem hann gæti ekki komist að niðurstöðu um.

Ég taldi að í öllum meginatriðum væru svör við þessum spurningum komin fram á þjóðfundinum, í afrakstri þeirrar vinnu sem þar var efnt til; mjög góð og mikil vinna. Ég taldi jafnframt að svör væru komin fram í vinnu stjórnlagaráðs o.s.frv. Ég hef ekki getað skilið hvernig menn ætla að ná dýpri skilningi á málinu á grunni þeirrar skoðanakönnunar sem ætlunin er að gera.

Þar sem það er einbeittur vilji stjórnarmeirihlutans, þó að nokkrir brestir séu í honum, að leita eftir ráðum varðandi spurningar sem hann sjálfur á að svara væri ekki úr vegi að inna hv. þingmann eftir því hvernig hún skynji afstöðu þingsins til þeirra breytingartillagna sem hún hefur lagt fram og þá sérstaklega varðandi það hvort vilji sé til að bæta við spurningu sem felst í breytingartillögu hv. þingmanns á þskj. 1106 og lýtur að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, hvernig hún skynji umræðuna í þinginu gagnvart þeirri tillögu.

Ég heyrði það á hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þar var ekki ríkur vilji til að bæta við neinum tillögum en þær umræður hafa heyrst frá hv. þingmönnum ýmsum, og jafnvel hæstv. ráðherra í fyrirspurnatíma í morgun, að kannski séu að verða einhver vatnaskil varðandi það mál.