140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu vegna þess að ég hafði ekki tíma til að fara inn á ESB-málið í ræðu minni áðan.

Fyrir liggur breytingartillaga um það hvort ganga eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu, samhliða þessum stjórnlagaráðstillögum, um að draga til baka umsóknina að Evrópusambandinu. Eins og þingmaðurinn fór yfir þá virðast meiri deilur innan ríkisstjórnarflokkanna um það en áður hefur verið. Það hefur beinlínis komið fram í þinginu í þessari viku að þrír þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa opnað á það að fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru hv. þm. Árni Páll Árnason, hv. þm. Helgi Hjörvar og hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir.

Ég tel að nú verði að láta á það reyna, hvort sem þetta verður samþykkt sem breytingartillaga við þingsályktunartillöguna eða þá að þingsályktunartillaga mín, sem liggur óafgreidd í utanríkismálanefnd, komist sem sjálfstæð tillaga á dagskrá þingsins, því að þar bíður hún síðari umr. og atkvæðagreiðslu í þinginu. Mælt hefur verið fyrir henni einu sinni þannig að ég er alveg til viðræðna um það hvor leiðin verður farin. En einhver tregi virðist vera í formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að hleypa þeirri tillögu inn í þingið.

Það ræðst þá — ef sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir gengur til atkvæða — hvort lýðræðisást ríkisstjórnarflokkanna nær ekki líka til þess að landsmenn fái að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB eða ekki. Það er ekki hægt að vera bara með lýðræðisást í sumum málum en ekki í öðrum. Ég bíð því spennt eftir atkvæðagreiðslunni.