140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við sem höfum gagnrýnt þennan málatilbúnað allan höfum mörg hver bent á hversu furðulegt það er að ætlast til þess að almenningur greiði atkvæði um tillögur sem ekki er vitað hvernig muni líta út. Í fyrsta lagi eru ekki komin drög að stjórnarskrá frá Alþingi og í öðru lagi eru þær spurningar sem gert er ráð fyrir að lagðar verði fram mjög óljósar, annars vegar eru þær óljósar og hins vegar bera þær það með sér að til þess sé ætlast að svarað sé á tiltekinn hátt. Á þetta hefur verið bent af þeim sem þekkja hvernig spurningar skuli orðaðar í skoðanakönnunum.

Svo gerðist það fyrir tveimur dögum líklega að hv. þm. Árni Páll Árnason lýsti því yfir að hann teldi hugsanlega tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort haldið skyldi áfram umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hver urðu þá viðbrögð hæstv. forsætisráðherra og margra þeirra sem hvað mest hafa talað fyrir þeirri tillögu sem hér er til umræðu? Viðbrögðin voru þau að það væri bara ekki hægt, það væri fráleit hugmynd að fara að greiða atkvæði um mál sem ekki væri búið að klára. Þetta var sama fólkið og kemur svo hingað upp og heimtar að farið sé í atkvæðagreiðslu um mjög óljósar stjórnarskrártillögur þó að ekkert liggi fyrir um hvernig tillagan komi til með að líta út frá þinginu. Þetta var sama fólkið og sakar þá sem eru á móti þeim undarlegu vinnubrögðum um það að vera á móti lýðræðinu, og vel að merkja sama fólkið og hefur verið andsnúið öllum möguleikum á þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili þegar þeir hafa komið upp.

Hvað varðar umsókn um aðild að Evrópusambandinu má benda á að þar liggja staðreyndir málsins fyrir. Evrópusambandið sjálft hefur raunar reynt að benda Íslendingum á það í bréfi að varhugavert sé að tala um samningaviðræður við Evrópusambandið vegna þess að það gefi til kynna að verið sé að semja um eitthvað. Þegar ríki sæki um aðild að Evrópusambandinu fari ekki í hönd samningaviðræður, tvíhliða samningar, um hvernig þátttöku þess ríkis í ESB verði háttað. Þvert á móti liggi fyrir út á hvað ESB gengur og viðræðurnar gangi út á það hvernig það ríki sem sækir um ætli að aðlagast sambandinu. Þetta hefur Evrópusambandið sjálft reynt að útskýra fyrir Íslendingum. Miklu frekar er hægt að greiða atkvæði um hvort menn vilji halda áfram umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu en um einhverjar mjög óljósar tillögur um stjórnarskrána. Tvískinnungurinn sem birtist í þessum hástemmdu yfirlýsingum stjórnarliða er því hróplegur.

Til að klára þennan samanburð er aðildarferli að Evrópusambandinu, til viðbótar við það að vera eitthvað sem er alveg fyrirsjáanlegt og ljóst hvert eigi að leiða, eitthvað sem þarf að leggja mikið fjármagn í og hefur tekið gríðarlega mikinn tíma. Því er þar um að ræða spurningu um forgangsröðun. Hér er hins vegar verið að eyða fjármagni og tíma í eitthvað sem mun ekki skila neinu. Menn verða engu nær eftir þessa svokölluðu skoðanakönnun og raunar má segja að gagnlegra væri til að fá mynd af afstöðu almennings, telji menn gagn í þeim spurningum sem hér eru lagðar fram í tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að halda um þetta almenna hefðbundna skoðanakönnun sem kostar að sjálfsögðu brot af því sem atkvæðagreiðslan kostar. Þá fengju menn þó að vita hver afstaða almennings væri í grófum dráttum og raunar af nokkurri nákvæmni á meðan þessi þjóðaratkvæðagreiðsla skapar hættu á því að einungis lítill hluti almennings mæti á kjörstað og niðurstaðan verði mjög skökk. Með því að hafa þennan þáttinn á er valin dýrari og verri leið, sérstaklega vegna þess hve óljóst þetta er. Það hlýtur að vera fráhrindandi þegar kemur að því að fá fólk til að mæta á kjörstað, ég tala ekki um að það er mjög óljóst hver áhrifin af þessu verða, ef menn hafa yfir höfuð fyrir því að mæta og taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Það er mjög óljóst hvað mun fást út úr því, sama hvernig þeir hinir sömu greiða atkvæði. Það hefði kannski legið beinna við að gera bara hefðbundna skoðanakönnun eða fá fyrirtæki til þess.

Fyrst við erum að ræða þetta og þar sem ákveðin hætta er á því að ríkisstjórnin berji þetta í gegnum þingið þá þurfum við þingmenn að taka mið af því og reyna að lágmarka tjónið eða að minnsta kosti reyna að láta þetta skila einhverjum árangri. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 1. flutningsmaður þessarar tillögu, lýsti því yfir, þegar hún var spurð út í það hvers vegna spurningarnar væru svona óljósar og þessi málatilbúnaður allur, að þetta væri fyrst og fremst spurning um að kanna viðhorf almennings til hugmyndafræðinnar að baki stjórnarskrá og stjórnarskrárbreytingum. Þetta snerist í raun ekki um atriðin sem slík, um greinarnar sem slíkar, heldur vildu menn með þessu fá hugmynd um hvaða áherslur almenningur vildi hafa þegar kæmi að hugmyndafræðinni við gerð stjórnarskrár. Ég hef því lagt fram þrjár breytingartillögur sem taka mið af þeim orðum formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Þær fela í sér þrjár grundvallarspurningar er varða hugmyndafræðina við það að semja stjórnarskrá.

Í fyrsta lagi legg ég til að ef af öllu þessu verður, og ráðist verður í könnun á viðhorfi fólks til hugmyndafræðinnar við gerð stjórnarskrár, verði spurt: Eiga breytingar á stjórnarskrá að miða að því að um hana verði sem víðtækust sátt? Einhverjir mundu kannski telja að þetta væri spurning sem gæfi tiltölulega augljóst svar en svo er alls ekki, ekki af ræðum stjórnarliða um þetta mál að dæma. Nú er það nefnilega komið upp, sem ekki hefur verið í gegnum tíðina á Íslandi, að valdhafarnir vilja nota meirihlutavald sitt, þótt tæpt sé, til að innleiða pólitíska stefnu sína í stjórnarskrána. (VigH: Rétt.) Þeim þykir þar af leiðandi ekki skipta öllu máli hversu mikil sátt er um niðurstöðuna svo framarlega sem þeir sjá fram á að meiri hluti náist um tillögur þeirra. Þetta tel ég að sé mjög röng og hættuleg aðferð við það að breyta stjórnarskrá.

Stjórnarskrá á að snúast um það sem almenn sátt er um í samfélaginu, þ.e. grundvallarlögin sem við sættum okkur meira og minna öll við að starfa eftir og haldast tiltölulega stöðug þó að ríkisstjórnir komi og fari. Þegar menn ætla að fara að breyta stjórnarskrá og láta hana líta út eins og stefnuskrá stjórnmálaflokks, og útiloka jafnvel skoðanir stórs hluta þjóðarinnar, eru menn komnir út á hættulega braut. Því er mjög eðlilegt og raunar nauðsynlegt að spyrja hvort sú aðferðafræði hugnist fólki. Þessi nýja aðferðafræði við breytingu á stjórnarskrá, að stjórnarskrá sé í raun nokkurs konar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar en ekki plagg sem meira og minna allir — jafnvel, ef maður má segja það, sjálfstæðismenn — geti sætt sig við.

Ég hef oft kvartað undan því hversu mikið fylgi Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið á Íslandi gegnum tíðina. En ég verð hins vegar að sætta mig við að í gildi sé stjórnarskrá sem sjálfstæðismenn rétt eins og sósíalistar geta sætt sig við. Allir verða að geta sætt sig við þá stjórnarskrá sem er í gildi, nema kannski mesta öfgafólkið. Mér finnst því við miðjumenn hvorki geta útilokað sósíalista né sjálfstæðismenn þegar að því kemur að semja stjórnarskrá. Þetta er ólíkt viðhorfum núverandi ríkisstjórnar en það verður fróðlegt að sjá hvort þetta samræmist viðhorfum almennings. Við komumst að því ef breytingartillaga mín verður samþykkt og þetta mál nær í gegn.