140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Þetta er allt mjög fróðlegt að hlýða á, ekki síst í ljósi mismunandi áherslna flutningsmanna þingsályktunartillögunnar og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar annars vegar og sýnar hv. þingmanns hins vegar.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af ýmsum ákvæðum í tillögum stjórnlagaráðs. Eins og fram kom í umræðum um þetta mál er eitt ákvæði þess eðlis að öllum skuli tryggð sanngjörn laun og í umræðum spunnust hugleiðingar um það hvernig ganga ætti úr skugga um að svo yrði og var meðal annars vísað í mjög bitra og sára reynslu núverandi Seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, þegar rætt var hvernig ætti að uppfylla þetta ákvæði.

Ég deili einnig áhyggjum hv. þingmanns af þeim þáttum sem breytingartillaga hans á þskj. 1375 tekur til, varðandi mikilvægi þess að ákvæði stjórnarskrárinnar séu auðskiljanleg. Þetta er að mörgu leyti dálítið flókið verkefni og í mínum huga hefur það verið flækt töluvert mikið í umræðunni undanfarin þrjú ár. Að mínu mati er verið að breyta stjórnarskránni í þá átt að verða pólitískt þrætuepli í stað þess að beina umræðunni í þann farveg að gera þessi grunnlög landsmanna að sameign. Jafnvel sjálfstæðismenn hafa þá hugsun, með framsóknarmönnum, að þannig eigi að umgangast þessi grundvallarlög landsins.

Ég vil gjarna gefa hv. þingmanni færi á að fjalla örlítið meira um þá breytingartillögu sem liggur fyrir á þskj. 1375 og lýtur að skiljanleika þeirra ákvæða sem í stjórnarskránni eiga að vera.