140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í fyrri ræðu fór ég yfir aðdragandann að þessu máli, skipun stjórnlagaráðs, hvernig stjórnlagaráðið síðan skilaði af sér, vinnuna í þinginu, vinnuna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hefur verið töluvert til umræðu hér líka, þá stöðu sem málið er í nú og þá fyrirhuguðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin hyggst fara í með einhverjar ákveðnar afmarkaðar spurningar, óljósar, sem tengjast vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár.

Það er þó ekki svo að sá sem hér stendur sé mótfallinn því að fram fari endurskoðun á stjórnarskránni. Hins vegar er mikilvægt að hafa það í huga, og það rakti ég einnig í fyrri ræðu, að stjórnarskrá á að vinna í sátt ólíkra hópa, ólíkra flokka, ólíkra sjónarmiða. Stjórnarskrá eigum við ekki að breyta við hverjar kosningar, þ.e. við eigum ekki að breyta mjög oft og það er einmitt þess vegna sem það þarf alþingiskosningar á milli, þ.e. til að menn vinni málið á breiðum grunni.

Eins og margir hafa komið inn á hefur meiri hlutinn ákveðið að fara fram með nokkrar spurningar, vangaveltur um sjónarmið, ætlar að fara fram með í þjóðaratkvæðagreiðslu og velta upp nokkrum spurningum og fá ráðgefandi álit þjóðarinnar á einhverjum ákveðnum atriðum. Í minni fyrri ræðu rakti ég þær spurningar sem ríkisstjórnin hefur lagt til og mig langar að fara aðeins yfir þær breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram frá fjölmörgum þingmönnum, bæði 1. og 2. minni hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og eins frá ákveðnum alþingismönnum. Það er verið að fara í eins konar skoðanakönnun meðal þjóðarinnar, ef það nær fram að ganga á Alþingi sem ég tel reyndar að séu ekki réttu vinnubrögðin í þessu máli, það væri rétt að klára að vinna málið í þinginu og fara síðan með heilsteypta stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þeirri vinnu væri lokið, ef um það næst víðtæk sátt í þinginu.

Ef menn ætla að fara af stað í einhvern svona spurningaleiðangur, skoðanakönnun meðal þjóðarinnar, má auðvitað spyrja um fjölmargt annað, bæði sem tengist stjórnarskránni og eins sem tengist málum sem brenna mjög á þjóðinni um þessar mundir.

Mig langar að byrja á því að fjalla um tvær breytingartillögur sem eru lagðar fram af hv. þm. Lilju Mósesdóttur, Jóni Kr. Arnarsyni og Valgeiri Skagfjörð, þessum þremur hv. þingmönnum, þar af eru reyndar tveir þeirra varaþingmenn sem ekki eiga sæti á Alþingi nú en áttu það þegar þessi tillaga var lögð fram.

Fyrri breytingartillagan er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem varða skattamál?“

Þarna er verið að spyrja þjóðina hvort hún vilji hafa í stjórnarskrá ákvæði þess efnis að hægt sé að spyrja um skattamál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skil ekki, frú forseti, hvers vegna þeir sem aðhyllast aukið beint lýðræði eru ekki tilbúnir að fá álit þjóðarinnar á því hvort hún vill hafa ákvæði um þetta í stjórnarskrá.

Önnur tillaga frá þessum hv. sömu þremur þingmönnum er svo, með leyfi frú forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum?“

Þarna er verið að tala um hvort þjóðin geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og Icesave-samningana. Það hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstjórn að hún er mótfallin því að slíkt geti farið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri raunar skelfilegt ef við horfðum upp á að stjórnarskrá yrði samþykkt án þess að það ákvæði væri inni. Þá hefði þjóðin þurft að taka á sig hundruð milljarða á sínum tíma vegna þess að það var enginn varnagli þar sem hægt var að grípa til og grípa þannig fram fyrir hendurnar á vanhæfri hæstv. ríkisstjórn.

Ég skil ekki af hverju þetta ákvæði má ekki vera inni og ég skil ekki heldur af hverju ekki má spyrja þjóðina hvort hún vilji halda þessu ákvæði inni. Ég hallast helst að því að ástæða þess sé sú að meiri hlutinn, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir, óttast að þjóðin kunni að vilja hafa þessi ákvæði í stjórnarskrá.

Svo er raunar líka með tillögu frá hv. þingmönnum í 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, svohljóðandi:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er heimilað að synja lagafrumvörpum staðfestingar og vísa þeim þannig í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Frú forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir hver afstaða ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur er í þessu máli sem og formanns Vinstri grænna. Það er ekki vilji til þess að þetta ákvæði sé inni. Það er einmitt þetta ákvæði sem gerði það að verkum á sínum tíma að það var hægt að vísa Icesave-samningunum til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að tillögur þess efnis höfðu verið felldar í þingsal af þessum stjórnmálaflokkum sem á tyllidögum kenna sig við mikla lýðræðisást.

Ég hallast að því að það sé eins með þessa tillögu sem við ræðum hér, um hvort það eigi að vera ákvæði í stjórnarskrá sem heimili forsetanum að hafna slíku og vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þar sé einnig óttinn við það að þjóðin kunni að vilja hafa þetta ákvæði í stjórnarskrá og að það sé ekki vilji til þess hjá ríkisstjórninni að spyrja þessarar spurningar.

Önnur breytingartillaga frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, er um að lagðir séu fram tveir nýir valkostir, annars vegar þessi, með leyfi frú forseta:

„Ég vil að unnið verði að breytingum á gildandi stjórnarskrá án þess að tillaga stjórnlagaráðs liggi þar til grundvallar.“

Og hins vegar:

„Ég vil að stjórnarskrá Íslands verði óbreytt frá því sem nú er.“

Frú forseti. Það eru mjög skiptar skoðanir um tillögur stjórnlagaráðs, bæði skipunina í það og tillögurnar eins og þær komu fram. Það eru líka mjög skiptar skoðanir um það hvort fólk telji nauðsynlegt að breyta stjórnarskrá Íslands. Mér finnst sjálfsagt að spyrja þjóðina, samhliða þessum ráðgefandi spurningavagni ríkisstjórnarinnar, hvort hún vill breyta stjórnarskránni. Vill þjóðin breyta stjórnarskránni í dag? Skiptir þetta mestu máli í dag? Mér finnst sjálfsagt að þjóðin fái að svara þessari spurningu. Ég skil raunar ekki hvers vegna meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er ekki tilbúinn til þess að þjóðin fái að svara þessari spurningu.

Frú forseti. Hér er einnig breytingartillaga frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana?“

Frú forseti. Stjórnarskráin er grundvöllur fullveldis okkar Íslendinga og mér finnst sjálfsagt að spyrja þeirrar spurningar. Nú hefur það komið fram, til að mynda hjá hæstv. utanríkisráðherra og einstökum þingmönnum, að það þurfi að setja ákvæði í stjórnarskrá sem heimili fullveldisafsal vegna EES-samningsins. Mér finnst sjálfsagt að spyrja hvort þjóðin vilji yfir höfuð heimila slíkt í stjórnarskrá. Kann að vera að þjóðin vilji ekki heimila frekara fullveldisafsal í stjórnarskrá? Það er bara mjög gott að það liggi fyrir þar sem þetta er grunnurinn undir fullveldi þjóðarinnar og á þessum grunni byggjum við allt annað. Mér finnst sjálfsagt að þjóðin fái að segja hug sinn á því hvort hún vilji yfir höfuð setja inn frekara fullveldisafsal.

Frú forseti. Töluvert fleiri breytingartillögur hafa verið lagðar (Forseti hringir.) fram og ég hef í hyggju að fjalla hér um þær. Tími minn dugar hins vegar ekki til þess og ég óska því eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.