140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að vekja athygli á nokkrum af þeim fjölmörgu breytingartillögum sem fram hafa komið við þetta mál. Þegar maður sér þessar breytingartillögur allar saman blasir við spurningin: Af hverju leggur meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar einungis til að það verði spurt um sex atriði í þessari stóru, dýru skoðanakönnun?

Eins og hv. þingmaður benti réttilega á er ekki spurt um afstöðu þjóðarinnar til fullveldisafsals vegna alþjóðasamninga en þó er það atriði mjög í deiglunni núna vegna þess að við erum með til umfjöllunar í utanríkismálanefnd atriði sem snertir þetta einmitt og það snýr að heimildum til fjármálaeftirlits í Evrópu sem við þekkjum og höfum rætt í þinginu. Það er ekki spurt um afstöðuna til þessa og ekki heldur um afstöðuna til málskotsréttar forseta Íslands. Þetta eru þó þau mál sem hafa kannski mest verið til umræðu og eru núna til umræðu í aðdraganda forsetakosninga.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði áðan að það ætti að láta stjórnarskrána líta út eins og stefnuskrá stjórnmálaflokks. Hver er skoðun hv. þingmanns á þessu? Af hverju telur hann meiri hluta nefndarinnar hafa staldrað við þessar spurningar en ekki þær fjölmörgu sem þingmaðurinn rakti svo ágætlega í erindi sínu?