140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann varðar málsmeðferðina alla og hvernig þetta mál endar allt saman.

Í stjórnarsáttmála var talað um að það þyrfti að fara út í þá hluti sem hér eru til umræðu, endurskrift á stjórnarskrá getum við sagt núna þegar drögin frá stjórnlagaráði liggja fyrir. Ferill þessa máls hefur verið endalaus sorgarsaga og nú eru sem sagt stjórnarflokkarnir búnir að vera við völd í rétt rúm þrjú ár. Ef farið verður út í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu sem allt bendir til kemur niðurstaða úr því væntanlega einhvern tímann í nóvember. Þá eru orðnir ansi fáir mánuðir til stefnu til að ljúka þessu máli.

Einhvern veginn finnst mér þetta bera allt saman keim af því að margir stjórnarliðar væru fegnastir ef þetta mál sofnaði einhvern veginn. Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér? Er hann sammála þeirri greiningu minni að það sé afar ólíklegt að þetta fari í gegnum þingið fyrir kosningar?